Manga-hátíð, heillandi heimur japanskra myndasagna | Háskóli Íslands Skip to main content

Manga-hátíð, heillandi heimur japanskra myndasagna

13. ágúst 2018

Japanskar myndasögur og tengsl þeirra við íslenskar fornbókmenntir verða í brennidepli á fjölbreyttri manga-hátíð í Reykjavík dagana 16.-18. ágúst. Hátíðin samanstendur af þremur tengdum viðburðum í Norræna húsinu, Háskóla Íslands og Borgarbókasafninu við Tryggvagötu.

Hátíðin hefst með málþingi um manga og miðaldabókmenntir í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur fimmtudaginn 16. ágúst kl. 13-16. Þar flytja erindi fjórir gestir frá Japan og tveir Íslendingar. Dagskráin heldur síðan áfram í Norræna húsinu kl. 20-22 en þar munu myndasagnahöfundarnir Henning Kure frá Danmörku og Makoto Yukimura frá Japan segja frá verkum sínum: Goðheimum og Vínlands sögu. Hátíðinni lýkur síðan með manga-maraþoni í Borgarbóksafninu við Tryggvagötu frá kl. 13-18 laugardaginn 18. ágúst en það er hluti af framlagi safnins til Menningarnætur í Reykjavík.

Að hátíðinni standa námsgrein í japönsku við Háskóla Íslands, Norræna húsið, Borgarbókasafnið og Fyrirmynd: félag teiknara og myndhöfunda en meðal styrktaraðila eru Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation, Forlagið, japanska sendiráðið í Reykjavík og japanski vísindasjóðurinn (JSPS Kakenhi).

Nánari upplýsingar má fá á vefjum Háskóla Íslands, Norræna hússins og Borgarbókasafnsins.

Magnað manga - málþing um japanskar myndasögur

Málþing um japanska myndasagnahefð (manga) og norræn áhrif á hana verður í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur, fimmtudaginn 16. ágúst frá kl. 13.00-16.00.  Þátttakendur eru fjórir gestir frá Japan og tveir Íslendingar.

Þingið setur Tsukusu Jinn Ito en síðan verða fluttir fimm fyrirlestrar: Jessica Bauwens ræðir um norrænar goðsagnir í myndasögum sem ætlaðar eru stúlkum, Sayaka Matsumoto fjallar um það hvernig þrír japanskir manga-höfundar hafa brætt goðsagnir og samtímamenningu saman og Atsushi Iguchi fjallar um útópískar hugmyndir í Vínlands sögu eftir Makoto Yukimura. Þá munu Úlfhildur Dagsdóttir og Gunnella Þorgeirsdóttir fjalla um aðra og almennari þætti í japanskri myndasagnahefð, meðal annars áhrif hennar á hugmyndir lesenda um hið yfirnáttúrlega.

Málþingið Magnað manga er hluti af Manga-hátíð í Reykjavík en aðrir viðburðir á henni eru dagskrá í Norræna húsinu 16. ágúst frá kl. 20-22 þar sem myndasagnahöfundarnir Henning Kure og Makoto Yukimura ræða verk sín og manga-maraþon í Borgarbóksafninu við Tryggvagötu, 18. ágúst frá kl. 13-19, en sá viðburður er hluti af dagskrá Menningarnætur í Reykjavík. Málþingið í Veröld fer fram á ensku og er öllum opið.

Norrænar miðaldabókmenntir og nýlegar myndastögur

Myndasagnahöfundarnir Henning Kure frá Danmörku og Makoto Yukimura frá Japan ræða um myndasögurnar Goðheima (Valhalla) og Vínlands sögu (Vinland Saga) í Norræna húsinu fimmtudaginn 16. ágúst kl. 20-22.  Sögurnar eiga sameiginlegt að byggja á persónum og minnum úr norrænum miðaldabókmenntum og njóta alþjóðlegrar útbreiðslu og hylli.

Norrænar miðaldabókmenntir hafa á liðnum áratugum veitt myndasagnahöfundum víða um heim innblástur. Myndasögurnar um Mighty Thor eru til marks um það en eitt metnaðarfyllsta verkefnið af þessu tagi er röð danskra myndasagna sem út komu á árunum 1979 til 2009 undir heitinu Valhalla (hér á landi nefnist hún Goðheimar). Serían er gjarnan kennd við teiknarann Peter Madsen en frumkvöðull að þróun hennar og einn handritshöfunda var Henning Kure (f. 1953). Hann var á sínum tíma ritstjóri hjá danska útgáfufyrirtækinu Interpresse og er afar vel að sér um norræna goðafræði. Auk bókanna fimmtán sem komu út í Valhalla-seríunni framleiddi sami hópur vinsæla teiknimynd árið 1986.

Á seinni árum er viðamesta myndasagan sem sækir innblástur í íslensku fornritin Vinland Saga sem Makoto Yukimura (f. 1976) hóf að gefa út hjá japanska útgáfufyrirtækinu Kodansha árið 2005. Fyrsta hálfa árið kom sagan út vikulega í tímaritinu Shōnen en undanfarin tólf ár hefur hver nýr kafli sögunnar birst mánaðarlega. Reglulega er nokkrum köflum safnað saman í innbundnum kiljum sem nú eru orðnar um tuttugu talsins en einnig hefur stór hluti verksins birst í enskri þýðingu. Fyrr á þessu ári var tilkynnt að teiknimyndasería (anime) byggð á sögunum væri í burðarliðnum.

Heimsókn þeirra Kure og Yukimura, sem styrkt er af Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation, Forlaginu og japanska rannsóknarsjóðnum, er hluti af Manga-hátíð í Reykjavík en aðrir viðburðir á henni er málþingið Magnað manga sem fram fer í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur 16. ágúst frá kl. 13-16 og manga-maraþon sem fram fer í Borgarbóksafninu 18. ágúst frá kl. 13-18. Dagskráin í Norræna húsinu fer fram á ensku og er öllum opinn.

Manga og japönsk menning í Borgarbókasafni

Borgarbókasafnið við Tryggvagötu býður borgarbúum upp á sannkallaða manga veislu á Menningarnótt frá kl. 13-18 þar sem haldið er upp á japanska menningu. Dagskráin er samsett af skemmtilegum uppákomum fyrir bæði börn og fullorðna, þar á meðal manga-maraþoni með þátttöku íslenskra myndasagnahöfunda.

Fyrirmynd, félag teiknara og myndhöfunda, skipuleggur sjálft maraþonið í samstarfi við Borgarbókasafnið og stendur það frá kl. 13 til 18. Þar koma ólíkir myndasagnahöfundar saman og vinna sögur í sínum persónulega stíl en undir áhrifum frá manga. Áskorunin felst í að klára myndasögu, hversu stutt eða löng sem hún er, á þessum fimm tímum. Hópur teiknara mun sitja við allan tímann en þeir sem ekki geta það en vilja taka þátt eru hvattir til að líta við og teikna í þann tíma sem þeir hafa aflögu. Að auki verður spunasaga í gangi þar sem hver og einn teiknar einn myndramma. Myndasögurnar verða hengdar upp jafnóðum á veggjum bókasafnsins.

Meðal annarra liða í dagskránni eru vinnustofa í manga-teikningu fyrir krakka, kynning á japönsku letri, karókí, flugdrekagerð og andlitsmálning. Einnig er í safninu sýning á teikningum úr Vínlands sögu japanska manga-höfundarins Makoto Yukimura en hann er staddur á Íslandi um þessar mundir.

Dagskráin í Borgarbókasafninu er hluti af Manga-hátíð í Reykjavík en aðrir viðburðir á henni eru málþing um manga í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur 16. ágúst frá kl. 13-16 og dagskrá með þátttöku Henning Kure og Makoto Yukimura í Norræna húsinu kl. 20-22 sama dag.

Auglýsing fyrir Manga-hátíð í Reykjavík