Skip to main content
9. mars 2017

Laganemar veita almenningi aðstoð við framtalsskil

Nemendur við Háskóla Íslands nýta þekkingu sína með ýmsum hætti í þágu samfélagsins og eru laganemar þar ekki undanskildir. Nú þegar styttist í skil á skattframtölum taka meistaranemar við Lagadeild höndum saman með endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte og bjóða almenningi upp á endurgjaldslausa aðstoð við framtalsskil á svokölluðum Skattadegi Orators, félags laganema. Hann  fer fram sunnudaginn 12. mars kl. 12-18 í hliðarsalnum við Háskólatorg (Litla-torgi) og er öllum opinn..

„Laganemar hafa boðið upp á framtalsaðstoð allt frá árinu frá 1981. Þá tóku laganemar vægt gjald fyrir aðföng og vinnu en í dag er þjónustan hins vegar endurgjaldslaus og í samstarfi við endurskoðunarfyrirtækið Deloitte,“ segir Áslaug Björk Ingólfsdóttir, meistaranemi við Lagadeild, og ein þeirra sem kemur að aðstoðinni.

Þeir sem glímt hafa við framtalið vita að það er að ýmsu að huga og að sögn Ingibjargar Ruth Gulin, sem einnig kemur að skipulagningu dagsins, hafa einstaklingar leitað til laganema og Deloitte með ýmis álitamál. „Á síðustu árum hafa t.d. einstaklingar með verktakagreiðslur, námsmenn sem hafa búið erlendis og doktorsnemar nýtt sér þjónustuna. Þá hafa erlendir aðilar sem hafa sjaldan eða aldrei skilað inn skattframtali á Íslandi líka leitað til okkar. Það er öllum velkomið að nýta sér þjónustuna og skattadagurinn hefur verið vel sóttur síðustu ár,“ segir Ingibjörg. Hún minnir á að til þess að geta nýtt sér þjónustuna sé mikilvægt fyrir fólk að hafa meðferðis veflykil Ríkisskattstjóra, lykilorð og/eða auðkennislykil fyrir heimabanka eftir því sem við á og verktakamiða ef þeir eru fyrir hendi.

Skattadagurinn kemur ekki aðeins framteljendum til góða heldur er hann kærkomin reynsla fyrir laganema. „Meistaranemar sem tekið hafa skattarétt taka þátt í deginum og aðstoða einstaklinga en sérfræðingar frá Deloitte eru þeim innan handar. Nemendurnir fá jafnframt kynningu og þjálfun frá Deloitte þar sem farið er yfir helstu atriði. Þetta er frábært tækifæri fyrir meistaranema við Lagadeild til þess að nýta þekkingu sína og að sama skapi gefa til samfélagsins,“ segir Áslaug.

Ingibjörg tekur undir það og minnir jafnramt á að Orator, félag laganema, býður einstaklingum líka upp á fría lögfræðiráðgjöf í gegnum síma á fimmtudagskvöldum milli kl. 19:30-22:00 í síma 551-1012.

Boðið verður upp á kaffi og veitingar á Skattadegi Orators.

Laganemar