Skip to main content
20. janúar 2019

Kennslan færir mér aukinn lífsþrótt

""

Háskóli Íslands státar af stórum og reynslumiklum hópi starfsmanna sem margir hverjir helga starfsævi sína skólanum og um leið íslensku samfélagi öllu, m.a. í gegnum kennslu og rannsóknir. Fáir státa af meiri starfsreynslu innan skólans en Jónatan Þórmundsson, prófessor emeritus við Lagadeild, sem rúmlega áttræður miðlar yfirgripsmikilli þekkingu sinni á alþjóðlegum refsirétti til laganema. Hann sendi nýverið frá sér fyrsta íslenska fræðiritið á sviði alþjóðlegs refsiréttar og segir kennslu og rannsóknir færa sér aukinn lífsþrótt.

Jónatan hóf störf við Háskóla Íslands árið 1967, eða fyrir 52 árum. Aðspurður hvernig það hafi komið til segir hann það hafa gerst af sjálfu sér. „Þegar ég hóf af krafti nám mitt í lögfræði árið 1959, eftir alllanga námsdvöl á Ítalíu, fékk ég fljótlega áhuga á fræðilegum hliðum lögfræðinnar, einkum á sviði refsiréttar og skyldra fræða. Mér gekk vel í náminu og útskrifaðist sem lögfræðingur í ársbyrjun 1964. Starfaði síðan í sex ár hjá nýstofnuðu embætti ríkissaksóknara, en fékk þó á þeim tíma leyfi til framhaldsnáms bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum. Ég fór að kenna við lagadeild HÍ strax haustið 1967, sem lektor í hlutastarfi, en var síðan skipaður í fullt starf sem prófessor árið 1970,“ segir Jónatan.

Því starfi gegndi hann allt til ársins 2008 þegar hann lét formlega af störfum fyrir aldurs sakir. „Tveimur árum síðar var leitað til mín um kennslu við deildina að nýju, þá á afmörkuðu réttarsviði, sem ég hafði gefið æ meiri gaum árin á undan. Það var alþjóðlegur refsiréttur, sem fáir hafa fengist við hér á landi. Ég hef síðan annast bæði kennslu og umsjón námskeiðs í þessari grein. Fyrstu árin fór námskeiðið fram á ensku en frá 2015 á íslensku. Mér fannst mikilvægt að halda mér við í fræðunum, skrifa og kenna samtímis. Auk þess hef ég fengist við ritstörf á fleiri sviðum lögfræðinnar,“ segir Jónatan.

Gaf út fyrsta íslenska fræðiritið í alþjóðlegum refsirétti
Þrjátíu nemendur eru skráðir í námskeið í alþjóðlegum refsirétti hjá Jónatan nú á vormisseri og hann segir kennsluna afar skemmtilega og gefandi. „Það færir mér aukinn lífsþrótt að geta unnið áfram, þótt kominn sé á eftirlaunaaldur, og þá sérstaklega að hugðarefnum mínum. Það er því miður heppni núorðið fremur en sjálfsagður hlutur, að samfélagið nýti sér reynslu og þekkingu fólks, sem náð hefur ákveðnum aldri,“ bætir hann við.

Jónatan lætur hins vegar ekki kennsluna nægja heldur hefur jafnframt sinnt rannsóknum á þessu fræðasviði og gaf nýverið út fræðiritið Alþjóðaglæpir og refsiábyrgð. Jónatan segist hafa byrjað á bókinni fyrir um fimm árum og látið jafnóðum reyna á textann í kennslu uns ritið kom út í bók 19. desember 2017. „Ég taldi, að framlag mitt til þessa fræðasviðs mundi nýtast best með þessum hætti. Engin slík bók hefur áður komið út á Íslandi.“

„Það færir mér aukinn lífsþrótt að geta unnið áfram, þótt kominn sé á eftirlaunaaldur, og þá sérstaklega að hugðarefnum mínum. Það er því miður heppni núorðið fremur en sjálfsagður hlutur, að samfélagið nýti sér reynslu og þekkingu fólks, sem náð hefur ákveðnum aldri,“ segir Jónatan Þórmundsson, prófessor emeritus við Lagadeild. MYND/Kristinn Ingvarsson

Var með eitt fyrsta námskeiðið í alþjóðlegum refsirétti á Norðurlöndum 
Í alþjóðlegum refsirétti er eins og nafnið bendir til fengist við alþjóðaglæpi eins og stríðsglæpi, hópmorð og glæpi gegn mannúð en slíkir glæpir koma bæði til kasta dómstóla einstakra ríkja og alþjóðlegra sakamáladómstóla, eins og þeirra sem komið var á fót í Nürnberg eftir seinni heimsstyrjöldina og í kjölfar stríðsglæpa og hópmorða í fyrrum Júgóslavíu og Rúanda á tíunda áratug síðustu aldar.  

Jónatan segist hafa hafið rannsóknir og kennslu á þessu fræðasviði árið 1995 og að þróunin á fræðasviðinu síðan þá hafi verið mikil. „Þetta var eitt fyrsta námskeiðið af þessu tagi á Norðurlöndum, enda hafði alþjóðlegur refsiréttur þá varla slitið barnsskónum sem sjálfstætt fræðasvið. Lítið hafði þá verið skrifað á þessu sviði hvert sem litið var. Þróun alþjóðlegs refsiréttar sem réttarsviðs og fræðigreinar hefur verið gríðarmikil á þeim 25 árum, sem síðan eru liðin. Þá var nýbúið að stofna fyrstu alþjóðlegu sakamáladómstólana (eftir Nürnberg og Tókýó). Nokkru síðar var stofnað til hins varanlega Alþjóðlega sakamáladómstóls í Haag (1998). Fjöldi sérdómstóla eða dómstóladeilda með alþjóðlegu ívafi hefur einnig litið dagsins ljós. Samþykktir allra þessara dómstóla og dómaframkvæmd þeirra allt frá 1995 hefur veitt jafnt fræðimönnum sem starfandi lögfræðingum við alþjóðlega dómstóla og ríkjadómstóla feiknamikinn efnivið að vinna úr, hvort sem er með fræðilegri greiningu í bókum og ritgerðum eða með tímafrekri vinnu við rannsókn, saksókn og dómstólameðferð alþjóðaglæpa,“ segir Jónatan enn fremur.

Skömmu fyrir síðustu áramót samþykkti Alþingi lög um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði en að sögn Jónatans hafði Ísland lengi vanrækt að uppfylla þjóðréttarskyldur sínar á þessu sviði. „Tími var svo sannarlega kominn til þess að samþykkja lög á þessu sviði og það var lán, að ekki urðu neinar afleiðingar af þessum drætti, eins og dæmi eru um annars staðar. Lögin eru að mörgu leyti vel unnin að mínu mati og greinargerðin með frumvarpinu mjög ítarleg. Höfundar frumvarpsins hefðu þó á stöku stað mátt gera betur, t.d. varðandi almenn og sérstök saknæmisskilyrði hinna þjóðréttarlegu refsireglna og eins varðandi hinar flóknu reglur Rómarsamþykktar og alþjóðlegs venjuréttar um þátttökumynstur sakborninga í alþjóðaglæpum. Þá hefði gjarna mátt fjalla um kosti og galla mismunandi aðferða við lögfestingu, t.d. við val milli hegningarlaga og sérrefsilaga. En lögin og greinargerðin eru vissulega mjög þarft framlag til umræðunnar um þetta réttarsvið, hverjar sem þarfir fyrir nýtingu laganna verða í framtíðinni,“ segir Jónatan og af orðum hans að dæma er hann hvergi nærri hættur að miðla af þekkingu sinni og reynslu á þessu mikilvæga fræðasviði.

Jónatan Þórmundson