Skip to main content
2. október 2017

Jafnréttismál eru ekki kvennamál

Jafnréttismál eru ekki kvennamál

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu var gestur Viðskiptafræðideildar við Háskóla Íslands og hélt erindi um stöðu kvenna í atvinnulífinu á hádegisfyrirlestri sem haldinn er reglulega hjá deildinni.

Hún fór yfir margt sem snýr að stöðu kvenna á Íslandi og ræddi m.a. um að enginn kona stýrir skráðu fyrirtæki á markaði á Íslandi í dag og konur stýra einungis 9% af stærstu fjármálafyrirtækjum landsins. Mikil umræða var um konur í fjölmiðlum og af hverju hallar á þær sem viðmælendur í ljósvakamiðlum, en konur voru 33% viðmælenda í ljósvakamiðlum árið 2016 og karlmenn 67% viðmælenda. Hrafnhildur fór yfir helstu verkefni FKA og eitt af þeim er að skoða stöðu kvenna í fjölmiðlum og þar veltum við fyrir okkur hver sé ástæða fyrir því að konur séu minna í fjölmiðlum en karlar, segja þær oftar nei eða hefur fjölmiðlafólk áhrif á þetta hlutfall? Markmið FKA er að fjölmiðar endurspegli samfélagið og að sögn Hrafnhildar vill félagið sjá jafnan hlut kvenna í fjölmiðlum.

Ísland er ein fremsta þjóð í heimi á sviði jafnréttismála

Hrafnhildur ræddi um að jafnréttismál þurfi að setja í forgang hjá fyrirtækjum í viðskiptalífinu með markvissum hætti og það er gert með jafnréttisáætlun, gagnsæjum ferlum við ráðningar, stöðuveitingum og endurgjöf, þjálfun og fræðslu til fyrirtækja og yfirmanna og meiri fókus á árangur og mælingar í jafnrétti.

Hádegisfyrirlesturinn var mjög vel sóttur. Að loknum fyrirlestri voru spurningar úr sal og greinilega mikill áhugi á að kynna sér hver sé raunveruleg staða kvenna í atvinnulífinu og það er nokkuð ljóst að þó að staða kvenna sé að batna þá getum við öll gert betur.