Skip to main content
5. janúar 2015

Inga og Páll sæmd fálkaorðu á nýársdag

Tveir prófessorar við Háskóla Íslands, þau Inga Þórsdóttir og Páll Einarsson, voru á nýársdag sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til rannsókna. Það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem veitti þeim og níu öðrum Íslendingum viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. 

Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, hlýtur fálkaorðu fyrir framlag til vísinda og rannsókna en Inga hefur í langan tíma verið í hópi öflugustu og afkastamestu vísindamanna á sviði næringarfræði hér á landi. Rannsóknir hennar hafa m.a. snúið að næringu ungbarna og skólabarna auk næringar aldraðra og sjúkra. Einnig hefur hún rannsakað barnshafandi konur, einkum með tilliti til fisk- og lýsisneyslu, og grænmetis-, ávaxta- og fiskneyslu ungra Íslendinga ásamt heilsubætandi framleiðslu úr mjólk og fiskmeti.

Inga lauk doktorsprófi í klínískri næringarfræði frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð árið 1989. Hún hefur verið prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands frá árinu 1997 og var forstöðumaður Rannsóknastofu í næringafræði frá því ári og fram til ársins 2013. Þá gegndi hún jafnframt starfi forstöðumanns Næringarstofu Landspítala á árunum 1995-2012 og var formaður Manneldisráðs frá 1998 til 2010. Inga hefur verið forseti Heilbrigðisvísindasviðs frá miðju ári 2012.

Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, hlýtur fálkaorðu fyrir rannsóknir og fræðslu á sviði íslenskra jarðvísinda. Páll er fyrir löngu orðinn landskunnur enda í hópi þeirra reyndu jarðvísindamanna sem fjölmiðlar leita til þegar eldsumbrot verða eða jörð skelfur á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Páll hefur verið ráðgjafi Almannavarna ríkisins um hættu af jarðskjálftum og eldgosum frá árinu 1975, eða í 40 ár, og setið í Vísindamannaráði Almannavarna frá upphafi. Rannsóknir hans snúa að jarðskorpuhreyfingum og þeim ferlum sem þeim fylgja en þar má nefna flekarek, eldvirkni, jarðskjálfta og sprunguhreyfingar.

Páll lauk fyrrihlutaprófi í eðlisfræði frá Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi árið 1970 og hélt þaðan til Bandaríkjanna þar sem hann lauk bæði meistara- og doktorsnámi í jarðeðlisfræði við Columbia-háskóla í New York árið 1975. Páll hóf störf sem stundakennari við Háskóla Íslands það sama ár en varð prófessor í jarðeðlisfræði 1994-1997 og síðan aftur frá 1999. Hann hefur stundað rannsóknir og verið gistifræðimaður víða um heim, þar á meðal í Cambridge og við Columbia-háskóla.

Háskóli Íslands óskar þeim Ingu og Páli innilega til hamingju með fálkaorðuna.

Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, voru bæði sæmd fálkaorðunni á nýársdag.
Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, voru bæði sæmd fálkaorðunni á nýársdag.