Skip to main content
8. júlí 2020

Hvernig hafa kosningalögin þróast?

Kosningakerfi mynda undirstöður lýðræðisins og því ákaflega mikilvægt að Íslendingar, bæði kjósendur og stefnumótendur, skilji hvernig kerfið sem við búum við í dag varð til. Jón Kristinn Einarsson vinnur þessa dagana að rannsókn sem snýr að því að rita sagnfræðilegt yfirlit yfir sögu og þróun íslenskra kosningalaga í Alþingiskosningum, fyrst og fremst með hliðsjón af kjördæmaskipan og reglum um úthlutun þingsæta en Jón Kristinn útskrifaðist með BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands í febrúar síðastliðnum og mun hefja meistaranám í Englandi næstkomandi haust.

„Kosningakerfið spratt ekki upp úr tómi heldur er það afrakstur ákvarðana sem hafa verið teknar og átaka sem hafa átt sér stað nokkuð reglulega frá endurreisn Alþingis. Von mín er sú að rannsókn á kosningalögunum leiði til gagnrýnnar umræðu um kerfið okkar og hvernig við viljum að kosið sé til Alþingis. Í ljósi sögunnar verður að teljast líklegt að endurskoðun kerfisins sé á næsta leiti. Sú síðasta var um aldamótin en yfirleitt hafa liðið í kringum tuttugu ár á milli breytinga. Rannsóknin mun hafa ótvírætt praktískt gildi þegar að því kemur,“ segir Jón Kristinn.

Umsjón með verkefninu hefur Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði, en hún hefur meðal annars rannsakað þróun lýðræðis á Íslandi á 19. og 20. öld. Rannsóknin er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Jón Kristinn segist hafa haft áhuga á kosningalögum frá því hann hóf að fylgjast með pólitík á árunum eftir bankahrunið. Á fyrsta árinu í sagnfræðináminu skrifaði hann ritgerð í námskeiði hjá Ragnheiði um breytingar sem gerðar voru á kjördæmaskipan árin 1942 og 1959. „Í vetur komst ég svo í samband við Þorkel Helgason stærðfræðing en hann hefur komið að hönnun íslenska kerfisins og vinnur að bók um fræðilegar undirstöður kosningakerfa. Hann vantaði einhvern til þess að skrifa kafla í hana sem tæki á sögu íslenska kerfisins og leist vel á að við myndum leiða hesta okkar saman. Þetta yfirlit mun því birtast sem kafli í bókinni,“ segir Jón Kristinn.

Skjalavörður Alþingis hefur þegar safnað saman öllum kosningalögum og umræðum um þau á Alþingi frá 1843 en þau gögn koma til með að mynda hryggjarsúlu rannsóknarinnar. „Sömuleiðis verður erlendu samhengi gefinn gaumur og reynt að tengja íslenska kosningakerfið við þróun í öðrum löndum, sérstaklega nágrannaríkjum. Ég vona að rannsóknin muni auka skilning okkar á sögu íslenska kosningakerfisins en að öðru leyti ráðast niðurstöður af því sem kemur fram í heimildunum. Í fyrri umfjöllunum um kerfið eru ýmis smáatriði (sem þó eru ekkert smá) sem hafa fallið milli skips og bryggju, auk þess sem sagnfræðingar hafa eftirlátið stjórnmálafræðingum þetta efni að miklu leyti. Hin sagnfræðilega nálgun mun því vonandi draga ýmislegt fram í dagsljósið sem hefur hingað til fengið litla umfjöllun.“

Jón Kristinn Einarsson vinnur þessa dagana að rannsókn sem snýr að því að rita sagnfræðilegt yfirlit yfir sögu og þróun íslenskra kosningalaga í Alþingiskosningum, fyrst og fremst með hliðsjón af kjördæmaskipan og reglum um úthlutun þingsæta.