Skip to main content
20. febrúar 2020

Hundrað þúsund heimsóknir í Náms- og starfsráðgjöf HÍ

Hundrað þúsund heimsóknir í Náms- og starfsráðgjöf HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (NSHÍ) fékk á dögunum hundrað þúsundustu heimsóknina frá því að núverandi skráningarkerfi ráðgjafarinnar var tekið upp fyrir tæpum tveimur áratugum. Verkefni ráðgjafarinnar hafa breyst töluvert á þeim tíma sem liðinn er og munu halda áfram að breytast í takt við kröfur nemenda skólans, að sögn deildarstjóra NSHÍ.

Það var ung kona í starfi úti í bæ, sem íhugar að skella sér í nám í Háskólanum, sem átti hundrað þúsundustu skráninguna í kerfi NSHÍ og hlaut að launum gjafabréf fyrir áhugakönnun eða námskeiði að eigin vali hjá ráðgjöfinni. 

„Þegar nemendur og aðrir gestir nýta sér þjónustu NSHÍ skrá þeir sig inn í heimsóknarkerfi í móttökunni og skilgreina þar erindi heimsóknar, hvort sem það er náms- eða starfsráðgjöf, námskeið, viðtal vegna sértækra úrræði í námi og prófum, ráðgjöf hjá sálfræðingi eða önnur persónuleg ráðgjöf,“ útskýrir María Dóra Björnsdóttir, deildarstjóri NSHÍ, og undirstrikar að hér sé um að ræða fjölda heimsókna en ekki fjölda einstaklinga sem heimsæki ráðgjöfina.

Heimsóknir tengdar náms- og starfsráðgjöf algengastar

Nánari greining á tölum NSHÍ sýnir að heimsóknir tengdar náms- og starfsráðgjöf eru algengastar. „Í fyrra voru t.d. skráðar 6.562 heimsóknir eða komur. Rúmlega 6 af hverjum tíu heimsóknum tengdust námsráðgjöf, námsvali, áhugakönnun, persónulegri/félagslegri ráðgjöf og starfsráðgjöf. Hlutfall heimsókna þar sem veitt var ráðgjöf vegna sértækra úrræða í námi eða prófum var tæplega 21%, rúmlega 12% heimsókna tengdust sálfræðiráðgjöf og tæp 4% námskeiðum og vinnustofum.“ 

Fyrsta skráða heimsókn í kerfi NSHÍ var snemma árs 2001 en frá þeim tíma hafa verkefnin vaxið og að sögn Maríu Dóru hefur fjöldi árlegra heimsókna verið á bilinu 5.600 til 7.000 síðasta áratuginn. „Ýmislegt hefur haft áhrif á sveiflur á milli ára, s.s. breytilegur fjöldi skráðra nemenda við skólann, lenging náms til kennsluréttinda, átak í kjölfar efnahagshrunsins, breytileg þátttaka nemenda í námskeiðum og vinnustofum á vegum NSHÍ og margt fleira. Þá hefur fjöldi nemenda með sértæk úrræði í námi aukist jafnt og þétt. Árið 2001 voru þeir 161 en árið 2019 voru þeir 1.118.“ 

Þjónustan í stöðugri þróun

María Dóra segir þjónustu NSHÍ í stöðugri þróun og endurskoðun. „Starfsfólk leggur áherslu á að hlusta á ábendingar frá nemendum og mæta þeim eins og kostur er ásamt því að eiga frumkvæði að nýjungum í þjónustunni, ýmist til lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna örfyrirlestra um afmarkað gagnlegt efni, stafræn námskeið, streitustjórnunarnámskeið, fjarvinnustofu um lokaverkefni, slökunarstund fyrir nemendur fyrir próf og HAM-námskeið vegna kvíða og þunglyndis og margt fleira,“ segir hún.

María Dóra bætir við að starfsfólk hafi í auknum mæli útbúið stafrænt efni og aukið notkun samfélagsmiðla til að ná til nemenda og mæta þörfum þeirra enn betur ásamt því að bjóða upp á netspjall hluta úr degi. „Síðustu ár hefur NSHÍ enn fremur tekið að sér umsjón með nýjum verkefnum í þágu verðandi og núverandi nemenda við skólann og má þar helst nefna Tengslatorg Háskóla Íslands, tengingu háskólanema við atvinnulífið, og Háskólaherminn fyrir framhaldsskólanema. NSHÍ er jafnframt virkur samstarfsaðili í mörgum verkefnum, s.s. um starfsþróun doktorsnema með Miðstöð framhaldsnáms, Spretti sem er stuðningsverkefni fyrir innflytjendur, móttöku erlendra stúdenta í samstarfi við Skrifstofu alþjóðasamskipta og fleira,“ bendir hún á og bætir við að starfsfólk NSHÍ taki jafnframt þátt í formlegu og óformlegu erlendu samstarfi.

Hægt er að kynna sér þjónustu Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands á vef skólans.

María Dóra Björnsdóttir