Hlaupið og hjólað á háskólasvæðinu | Háskóli Íslands Skip to main content

Hlaupið og hjólað á háskólasvæðinu

19. mars 2018

Það er vor í lofti  og þá taka margir fram göngu- og hlaupaskóna eftir veturinn. Aðrir dusta rykið af reiðhjólinu og byrja aftur að nýta það til að ferðast til og frá háskólasvæðinu. Til þess að hvetja enn fleiri starfsmenn og stúdenta til vistvænnar og heilsusamlegrar hreyfingar hefur Háskóli Íslands látið útbúa tvö kort með áhugaverðum göngu- og hlaupaleiðum nærri íþróttahúsum skólans á Melunum og í Stakkahlíð og þriðja kortið sem sýnir hversu lengi er verið að hjóla á háskólasvæðið frá ólíkum borgarhlutum.

Góðar göngu- og hlaupaleiðir eru nærri Háskóla Íslands, bæði á háskólasvæðinu á Melunum og í Stakkahlíð. Á nýju göngu- og hlaupakortunum er að finna þrjár leiðir á hvorum stað sem henta bæði byrjendum og lengra komnum ásamt heilræðum til hlaupara. Þá má geta þess að í fjölmörg ár hefur verið starfræktur  hlaupahópur í íþróttahúsinu á Melunum en hann hittist á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 12.10 og æfir undir stjórn öflugra þjálfara. Æfingarnar eru opnar bæði starfsmönnum og stúdentum.

Á hjólakortinu má finna radíus tímavegalengda frá háskólasvæðinu  og miðað við það tekur aðeins á milli 40-50 mínútur að hjóla á svæðið frá ystu hlutum höfuðborgarsvæðisins. Hjólastígar eru komnir víða um borg og má jafnframt finna þá á kortinu. 

Háskólinn hvetur starfsmenn og stúdenta til þess að hjóla til og frá vinnu og vinnur stöðugt að því að bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Nýlega var tekin í gagnið bráðabirgðahjólageymsla í formi gáma. Annar þeirra er fyrir neðan Nýja-Garð og hinn er við Múla í Stakkahlíð. Hjólageymslurnar eru læstar, með lýsingu og hjólabogum.

Göngu og hlaupakort í nágrenni íþróttahússins á Melunum.
Göngu- og hlaupakort í nágrenni íþróttahúss Háskólans í Stakkahlíð.
Kort sem sýnir hversu lengi er verið að hjóla á háskólasvæðið frá ólíkum borgarhlutum.

Netspjall