Skip to main content
6. október 2021

HÍ í hópi þeirra 250 bestu í verkfræði og tækni

HÍ í hópi þeirra 250 bestu í verkfræði og tækni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í 201.-250. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði verkfræði og tækni samkvæmt lista tímaritsins Times Higher Education sem birtur var í dag. Skólinn hefur því komist á alls fimm lista tímaritsins yfir framúrskarandi háskóla á afmörkuðum fræðasviðum nú í haust.

Mat Times Higher Education tekur til nærri 1.200 háskóla víða um heim sem bjóða upp nám í fjölbreyttum greinum verkfræði og tækni, svo sem rafmagns- og rafeindaverkfræði, vélaverkfræði, byggingarverkfræði, efnaverkfræði og flugvélaverkfræði. Við matið er horft til sömu þátta og þegar háskólar eru metnir sem heild, svo sem rannsókna, áhrifa þeirra í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu og námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er horft til hefða í rannsóknum og birtingum á umræddum fræðasviðum.

Háskólinn er sem fyrr segir í hópi 250 bestu háskólanna á sviði verkfræði og tækni að þessu sinni en þar var hann einnig í fyrra. Fyrr í haust birti Times Higher Education lista yfir fremstu háskóla heims á fjórum öðrum fræðasviðum og komst Háskóli Íslands á þá alla. Hann reyndist í 151.-175. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda, í hópi 250 bestu á sviði raunvísinda, í sæti 250-300 sæti á sviði sálfræði og í hópi 500 bestu innan klínískra heilbrigðisvísinda. Þá er ótalinn heildarlisti Times Higher Education yfir bestu háskóla heims sem einnig var opinberaður nýverið, en Háskóli Íslands hefur verið á þeim lista í heilan áratug. 

Háskóli Íslands hefur því samanlagt komist á fimm lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum auk heildarlistans. Listarnir staðfesta að skólinn stendur styrkum fótum á fjölbreyttum fræðasviðum í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Sú staða fær frekari stuðning á Shanghai-listum yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum vísinda- og fræðasviðum sem birtir voru í sumar. Þeir sýna m.a. að skólinn er í allra fremstu röð á sviði fjarkönnunar og í hópi þeirra 45 bestu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði. Listar Times Higher Education og ShanghaiRanking Consultancy eru jafnan taldir áhrifamestu og virtustu matslistar heims á þessu sviði og Háskóli Íslands er einn íslenskra háskóla á þeim báðum.

Von er á fleiri listum Times Higher Education á afmörkuðum fræðasviðum síðar í haust. Þeir taka til félagsvísinda, viðskiptafræða, hugvísinda, menntavísinda og lögfræði.

Nýjan lista yfir fremstu háskóla heims á sviði verkfræði og tækni má finna á finna á vef Times Higher Education.

Frá háskólasvæðinu