Skip to main content
2. október 2023

HÍ efstur íslenskra háskóla á nýjum lista THE

HÍ efstur íslenskra háskóla á nýjum lista THE - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í sókn á nýjum lista Times Higher Education World University Rankings (THE) yfir bestu háskóla heims en hann var birtur í liðinni viku. HÍ er nú efstur íslenskra háskóla og hækkar sig um 35 sæti á listanum milli ára.

Þetta er í 20. sinn sem tímaritið gefur út listann en Háskóli Íslands hefur verið á honum allt frá aldarafmælisárinu 2011. Listi THE og listi samtakanna ShanghaiRanking Consultancy, oft nefndur Shanghai-listinn, eru tveir virtustu matslistarnir yfir bestu háskóla heims og er HÍ eini íslenski háskólinn á Shanghai-listanum. Í ár er HÍ í sæti 601-700 á þeim lista. Þá er skólinn einn íslenskra háskóla á lista US News and World Report yfir fremstu háskóla heims auk CWTS Leiden listans sem tekur til frammistöðu háskóla í vísindarannsóknum.

Nýr listi THE byggist á mati á rúmlega 1.900 háskólum í 108 löndum. Matið hefur tekið breytingum á milli ára og í stað þess að horfa til 13 mælikvarða í starfi háskóla er nú horft til 17 mælikvarða í fimm flokkum. Þeir snerta náms- og rannsóknarumhverfi, gæði rannsókna og áhrif þeirra í alþjóðlegu samhengi, alþjóðleg tengsl háskóla og tengsl við atvinnulíf.

Með þessum nýju mælikvörðum er m.a. lagt heildstæðara mat á gæði rannsókna í háskólum en áður. Mælikvarðarnir taka ekki einungis til fjölda tilvitnana heldur hlutfalls vísindagreina sem hafa hæsta svokallaða áhrifastuðulinn á hverju sviði á alþjóðavettvangi. Auk þess er lagt breiðara mat á birtingar og áhrif þeirra fyrir framþróun og sköpun þekkingar í heiminum.

Samkvæmt THE er Háskóli Íslands í 501.-600. sæti á listanum í ár en nánari útreikningar innan þess flokks sýna að Háskólinn er í 505. sæti. Til samanburðar var HÍ í 540. sæti á listanum í fyrra. 

Háskóli Íslands hefur raðast hátt á lista THE yfir einstök fræðasvið og vísindagreinar undanfarin ár auk þess að ná feiknargóðum árangri á lista tímaritsins yfir þá háskóla í heiminum sem skila hæfustu nemendum út í atvinnulífið. Þar var háskólinn síðast í sæti 161.

Einnig hefur HÍ skarað fram úr meðal íslenskra háskóla hvað varðar samfélagsleg áhrif að mati THE. Skólinn hefur í fjögur ár í röð komist á lista tímaritsins yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

Nýjan lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims má finna hér.

""