Skip to main content
27. september 2018

Háskóli Íslands í hópi þeirra bestu áttunda árið í röð

""

Háskóli Íslands er áttunda árið í röð á lista tímaritisins Times Higher Education yfir bestu háskóla heims og raðast nú í sæti 250-300. Nýr listi fyrir árin 2018-2019 var birtur í vikunni. Skólinn er enn fremur í 19. sæti  yfir bestu háskóla á Norðurlöndum. 

Háskóli Íslands komst fyrst á lista Times Higher Education á aldarafmæli skólans árið 2011 og hefur allar götur síðan verið í hópi 300 bestu háskóla heims. Times Higher Education byggir mat sitt á rannsóknastarfi yfir 1.250 háskóla víða um heim, áhrifum þeirra á alþjóðlegum vettvangi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá Háskóla Íslands á meðal 300 bestu háskóla í heiminum eins og hann hefur verið undanfarin ár. Ég þakka þrotlausu starfi bæði starfsfólks og stúdenta þennan árangur. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga breiðan háskóla í fremstu röð. Framtíðartækifæri liggja bæði í þverfræðileikanum innan skólans og dýptinni í rannsóknum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, um þennan árangur. 

Listi Times Higher Education er annar af tveimur virtustu og áhrifamestu matslistunum yfir bestu háskóla heims. Hinn er Shanghai-listinn svokallaði en Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn inn á hann árið 2017. Samkvæmt Shanghai-listanum í ár, sem tekur til einstakra fagsviða, er Háskóli Íslands sá sjöundi besti í heiminum á sviði fjarkönnunar en hún fæst m.a. við að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Þá er Háskólinn í 76.-100. sæti á sviði jarðvísinda og í sæti 101-150 á sviði lífvísinda, landfræði og hjúkrunarfræði, í sæti 151-200 í ferðamálafræði, 201.-300. sæti í lýðheilsuvísinum og klínískri læknisfræði og í sætum 301-400 yfir bestu háskóla heims í líffræði mannsins og stjórnmálafræði.

„Við verðum að halda áfram á sömu braut. Það hefur verið litið til glæsilegs vísindaárangurs okkar í alþjóðlegu samhengi á undanförnum árum. Fræðasvið Háskóla Íslands hafa enn fremur komið mjög vel út í röðun Times Higher. Þótt þetta sé glæsilegur árangur sem starfsfólk Háskóla Íslands getur verið stolt af er mikilvægt að hafa í huga að erlendir samanburðarháskólar okkar eru að bæta sig. Við megum því ekki dragast aftur úr heldur verðum að sækja fram. Fjárfesting samfélagsins í menntun er fjárfesting í framtíðinni,“ segir rektor enn fremur.

Staða Háskóla Íslands á lista Times Higher Education hefur skapað skólanum fjölmörg tækifæri til samstarfs við erlendar vísindastofnanir á síðustu misserum og endurspeglar það styrk hans sem alhliða alþjóðlegs rannsóknaháskóla. 

Lista Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims og upplýsingar um grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu Times Higher Education.

 

Aðalbygging Háskóla Íslands