Skip to main content
25. október 2017

Háskólaþing haldið í dag

Háskólaþing Háskóla Íslands verður haldið í Hátíðasal í Aðalbyggingu í dag kl. 13-16. Fjögur mál eru á dagskrá þingsins.

Fyrst reifar rektor mál sem eru efst á baugi í Háskóla Íslands.

Næst verður fjallað um niðurstöður úttektar á stjórnun og skipulagi fræðasviða og deilda. Ómar H. Kristmundsson, prófessor, gerir grein fyrir málinu og síðan bregðast við þau Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, Anna Dóra Sæþórsdóttir, deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar.

Þriðja málið á dagskrá er innleiðing HÍ21, Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021. Tekin verða fyrir tvö atriði stefnunnar: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, gerir grein fyrir endurskoðun rannsóknatengdra sjóða Háskóla Íslands og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, greinir frá yfirstandandi þarfagreiningu og fyrirhugaðri innviðaáætlun Háskóla Íslands.

Fjórða og síðasta mál á dagskrá þingsins er kynning á hlutverki og starfi innri endurskoðunar Háskóla Íslands og mun Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi, gera grein fyrir því.
 
Háskólaþing er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið tekur þátt í að móta sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands að frumkvæði rektors. Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólaþings um hvaðeina sem varðar starfsemi Háskóla Íslands og ráðið getur einnig falið þinginu umfjöllun um fagleg málefni og akademíska stefnumörkun. Háskólaþing er ályktunarbært um þau málefni sem það telur að varði hag háskólasamfélagsins.

Á háskólaþingi eiga fast sæti rektor, forsetar fræðasviða og deildarforsetar. Þar sitja jafnframt kjörnir fulltrúar úr röðum akademískra starfsmanna Háskólans, samtaka háskólakennara, starfsmanna við stjórnsýslu, stofnana sem starfa samkvæmt sérlögum eða tengjast háskólanum sérstaklega og fulltrúar samtaka nemenda. Að jafnaði sækja um 90-100 fulltrúar háskólaþing.

Streymt verður frá þinginu og er hlekkurinn https://rec.hi.is/Panopto/Pages/Viewer.aspx?id=c7e58dbe-2b3c-4e44-a68d-f...

Frá Háskólaþingi í maí 2017