Skip to main content
11. febrúar 2020

Háskólar sameinast gegn sjóveiki

""

Fyrr í dag var tekinn í notkun nýr og fullkominn hátæknibúnaður til rannsókna á sjóveiki og annarri hreyfiveiki en rekstur búnaðarins er samstarfsverkefni Lífvísindaseturs Háskóla Íslands, Heilbrigðistækniseturs Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Í herminum er sýndarveruleiki tengdur við hreyfanlegt undirlag og því unnt að líkja eftir aðstæðum á hafi úti, við akstur, flug og fleira í þeim dúr er alla jafna kalla fram hreyfiveiki. 

Hreyfiveiki felst í nokkuð algengum einkennum sem fylgja því að ferðast um í farartæki. Sjóveiki og bílveiki eru þekktastar enda eru áhrif þeirra mjög afgerandi. Með tilkomu nýrrar tækni hafa komið fram nýjar gerðir hreyfiveiki, svo sem við notkun sýndarveruleika, við tölvuleikjaspilun og þegar einstaklingar eru þjálfaðir í hermiumhverfi fyrir t.d. flugvélar og skip. Þar er samnefnarinn sá að einstaklingurinn er hreyfingarlaus meðan sjónsviðið er kvikt.

Hannes Petersen, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðumaður líffærafræði við Læknadeild, er frumkvöðull í rannsóknum á hreyfiveiki hér á landi. Hann segir að sýndarveruleikahluti sjóveikihermisins hafi í fyrstu verið þróaður til endurhæfingar en tengingin við hreyfieiningu búnaðarins geri rannsóknir á hreyfiveiki og þjálfun einstaklinga í hreyfiríku umhverfi mögulega.

„Hermirinn verður einnig notaður til að öðlast betri skilning á eðli hreyfiveiki og í framhaldinu verður hann notaður til að meðhöndla slíka veiki,” segir Hannes. 

Hann segir að með sýndarveruleikatækni megi framkalla hreyfiheim sem sé svo raunverulegur að fólk finni fyrir hreyfiveiki, eins og sjó- eða bílveiki, þótt það sitji eða standi kyrrt.

Rektorar háskólanna þriggja sem koma að uppbyggingu rannsóknaaðstöðu tengdri sjóveiki undirrituðu samkomulag um samstarf á síðasta ári. Frá vinstri: Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Rannsóknir Hannesar hafa vakið athygli víða um lönd en þær hafa m.a. beinst að hlutverki innra eyra mannsins í hreyfiveiki. Þessar rannsóknir skipta líklega meira máli fyrir Íslendinga en margar aðrar þjóðir því að við reiðum okkur að verulegu leyti á fiskveiðar. Á sjónum getur oft verið erfitt að ná jafnvægi og standa uppréttur enda getur gefið á bátinn á Íslandsmiðum. Með nýja herminum verður hugsanlega unnt að draga úr slysum á sjó með markvissri þjálfun sjómanna í herminum.  

Hannes, sem starfaði um árabil sem læknir á þyrlum Landhelgisgæslunar, hefur margoft flogið út á miðin að sækja sjómenn sem orðið hafa fyrir slysum við störf sín. „Sjómenn eru gjarnan með öll einkenni sjóveiki þótt þeir kasti ekki upp. Þeir hafa hraða öndun auk þess sem blóðþrýstingurinn og púlsinn er eins og hjá hreyfiveikum. Það vantar aðeins að þeir kasti upp og því telja þeir sig ekki sjóveika,“ segir Hannes. „Þeir fá svo sjóriðu þegar í land er komið sem getur ýtt undir slys þar.“

Fyrstu rannsókninni sem nýta mun tæknibúnaðinn var einnig hleypt af stokkunum í dag. Fjörutíu heilbrigðir einstaklingar munu taka þátt í henni. Könnuð verða áhrif mismunandi hreyfingar og hvaða hreyfigerð og styrkur framkallar kröftugustu einkenni hreyfiveiki. Áhrifin verða metin út frá niðurstöðum spurningalista og mælinga á lífeðlisfræðilegum þáttum.

Hermirinn verður undirstaða fjölbreyttra rannsókna á þessu sviði á næstu misserum en hann verður staðsettur í Háskólanum í Reykjavík. 

Fjölmenni var viðstatt þegar nýr og fullkominn hátæknibúnaður til rannsókna á sjóveiki og annarri hreyfiveiki var tekinn í notkun í dag.
Hannes Petersen ávarpar gesti