Skip to main content
23. maí 2019

Háskólalestin á Djúpavogi um helgina

Háskólalest Háskóla Íslands heldur í vikunni í sína síðustu ferð þetta vorið og heimsækir Djúpavog dagana 24. og 25. maí. Þetta er í fyrsta sinn sem lestin stöðvast þar.

Háskólalestin hefur verið á ferðinni í maímánuði og hefur nú þegar heimsótt Hveragerði, Bolungarvík og Fjallabyggð. Áhöfn hennar hefur fengið firnagóðar mótttökur með sín fjölbreyttu fræði og vísindi sem ætluð eru öllum aldurshópum.

Nú er komið að Djúpavogi og nágrannasveitarfélögum og á morgun, föstudaginn 24. maí, munu 75 nemendur í 5.-10 bekk úr Grunnskóla Djúpavogs, Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar sækja spennandi námskeið hjá áhöfn Háskólalestarinnar. Nemendur geta valið um jafn fjölbreytt námskeið og efnafræði, rafrásir og rafmagn, japönsku, blaða- og fréttamennsku, stjörnufræði og vindmyllusmiðju.

Háskólalestin efnir svo til glæsilegrar vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna laugardaginn 25. maí kl. 11-15 á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Þar verður hægt að gera óvæntar uppgötvanir og stunda alls kyns mælingar og pælingar með áhöfn lestarinnar. Sprengju-Kata verður þar með dularfullar efnablöndur, hægt verður að kynna sér undraheima Japans, skoða stjörnur og sólir með Sævari Helga, leika sér með ljós og hljóð, kynnast rafrásum og lóðun, vindmyllum og vængjum ásamt ýmsu öðru.

Enginn aðgangseyrir er að vísindaveislunni og allir hjartanlega velkomnir!

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og á Facebook
 

Nemendur í Grunnskólanum á Bolungarvík og Sævar Helgi Bragason