Grænt skref á Háskólatorgi | Háskóli Íslands Skip to main content

Grænt skref á Háskólatorgi

9. febrúar 2018

Skrifstofustarfsemi á Háskólatorgi hefur nú tekið fyrsta græna skrefið í átt að umhverfsvænni rekstri og fylgir þar með í fótspor Aðalbyggingar Háskóla Íslands sem lauk fyrsta skrefinu 2017.  

Verkefnið Græn skref snýst um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Það felur í sér mikinn ávinning og gerir starf Háskólans markvissara í sjálfbærni- og umhverfismálum. Skrefin hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi skólans og draga úr rekstrarkostnaði. 

Fyrsta skrefið samanstendur af 35 aðgerðum sem ganga út á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af skrifstofustarfsemi, til dæmis með því að draga úr orkunotkun tölva, prenta báðum megin á blöð og tryggja að minnst 80% af hreinlætisvörum sem notuð eru í starfseminni séu umhverfisvottuð. Skrefin eru samtals fimm og kröfurnar aukast eftir því sem lengra er haldið.

Föstudaginn 2. febrúar veitti Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur frá Umhverfisstofnun, starfsfólki á skrifstofum Háskólatorgs viðurkenningu fyrir að hafa lokið við fyrsta skrefið. Hún sagði það jákvætt að háskólar og framhaldsskólar tækju þátt í verkefnum eins og Grænum skrefum enda mikilvægt að starfsfólk væri fyrirmynd nemenda sinna. 

Anna Birna Halldórsdóttir, þjónustustjóri á þjónustuborði Háskólatorgs, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd samstarfsfólks síns sagði að það hefði komið sér á óvart hve auðvelt fyrsta græna skrefið væri og að hún hlakkaði til að halda áfram og takast á við erfiðari áskoranir seinni skrefa. 

Anna Birna Halldórsdóttir, þjónustustjóri á þjónustuborði Háskólatorgs, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd samstarfsfólks síns úr hendi Hólmfríðar Þorsteinsdóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun. Með þeim á myndinni er Þorbjörg Sandra Bakke, verkefnisstjóri umhverfis- og sjálfbærnimála við Háskóla Íslands.

Netspjall