Skip to main content
25. september 2019

Geimvísindastofnanir funda  um fjarkönnun og náttúruvá

""

„Geimvísindastofnanir stunda ekki aðeins rannsóknir á öðrum plánetum og fyrirbærum í geimnum heldur sinna þær líka miklum rannsóknum á Jörðinni. Vinnuópur fólks frá geimvísindastofnunum sem vinnur að rannsóknum og vöktun á náttúruvá á jörðinni fundar nú á Jarðvísindastofnun Háskólans,“ segir Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskólans, sem nú leiðir fund vísindafólks sem jafnan beinir sjónum að geimnum í rannsóknum sínum.  Michelle Parks frá Veðurstofu Íslands leiðir fundinn með Freysteini. 

Hann segir að þátttakendur komi m.a. frá geimvísindastofnunum í Bandaríkjunum (NASA), Evrópu (ESA), Ítalíu, Þýskalandi, Bretlandi og kínversku vísindaakaemíunni.  

„Þetta er hópur fólks sem vinnur að því að auka veg fjarkönnunar með gervitunglum í tengslum við náttúruvá í samstarfi við stóran hóp vísindamanna út um allan heim. M.a. er fjallað um eldvirkni, jarðskjálfta og skriðuföll.“

Framarlega í fjarkönnun

Fjarkönnun felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Þetta er gríðarlega mikilvægt í eldgosum eins og við Íslendingar fengum að kynnast þegar eldsumbrotin stóðu yfir í Holuhrauni árin 2014 og 2015. Fjarkönnunarrannsóknir ganga jafnframt út á að þróa aðferðir til að draga fram upplýsingar úr fjarkönnunarmyndum ásamt því að safna og vinna úr fjarkönnunargögnum.

Þegar nýjasti listi ShanghaiRankings yfir bestu háskóla heims var birtur fyrir skemmstu kom í ljós að Háskóli Íslands er í sjötta sæti yfir bestu háskólana á sviði fjarkönnunar og í sæti hundrað á sviði jarðvísinda. Freysteinn er vísindamaður á báðum þessu sviðum. Hann segir að fjarkönnun skipti gríðarmiklu máli fyrir jarðvísindin og ekki síst eldfjallafræði og viðbrögð við náttúruvá. „Með fjarkönnun er hægt er fylgjast með framþróun eldgosa, öskufalli, hraunflæði og útstreymi á eldfjallagasi. Mörg gervitungl koma við sögu. En það er líka hægt að fylgjast með ákveðnum fyrirboðum fyrir eldgos.  T.d. er hægt að mæla jarðskorpuhreyfingar og landris á eldfjöllum, sem oft verða í aðdraganda eldgosa, með aðferð sem gengur undir nafninu „InSAR“ eða bylgjuvíxlmælingar úr gervitunglum.“

Ör framþróun í fjarkönnun

Freysteinn segir að framþróun í fjarkönnun sé mjög ör. „Ný gervitungl sem skotið hefur verið á loft á síðustu árum skipta miklu við mælingar á eldfjallagasi, jarðskorpuhreyfingum og hitabreytingum á eldfjöllum. Mikil framþróun hefur t.d. orðið í InSAR-mælingum, sem geta nú getið gefið betri niðurstöður en áður með tilkomu Sentinel-1A og 1B gervitungla Evrópsku geimsvísindastofnunarinnar. Hér á landi skipta slíkar mælingar nú töluverðu máli við eldfjallavöktun, við getum við hagstæðar aðstæður mælt árlegar breytingar á jarðskorpuhreyfingum á eldfjöllum utan jökla með um 10 mm nákvæmni.“

Freysteinn Sigmundsson