Garðálfarnir sigruðu í LEGO-hönnunarkeppni FLL | Háskóli Íslands Skip to main content
11. nóvember 2019

Garðálfarnir sigruðu í LEGO-hönnunarkeppni FLL

""

Garðálfarnir úr Garðaskóla báru sigur úr býtum í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói um helgina. Liðið tryggði sér um leið þátttökurétt í Norðurlandakeppni FIRST LEGO League sem fram fer í Hróarskeldu í Danmörku í lok nóvember.

Keppnin er haldin í nánu samstarfi við grunnskóla landsins og hefur verið fastur viðburður um árabil. Alls tóku 16 lið úr grunnskólum hvaðanæva af landinu þátt að þessu sinni. Þátttakendur voru um 140 á aldrinum 10-16 ára en fjöldi leiðbeinenda hefur unnið með þeim baki brotni allt síðan í ágúst við undirbúning fyrir þátttöku í keppninni. 

Ár hvert er keppninni valið tiltekið þema og að þessu sinni var það borgarhönnun (e. city shaper). Þar fengust keppendu m.a. við spurninguna: „Ef það væri í þínum höndum að byggja betri heim, hvernig yrði hann?“

Þátttakendur sýndu einstaka hugvitssemi, þekkingu og hæfni í fjölbreyttum og afar áhugaverðum lausnum í öllum keppnisgreinum, jafnt forritun og hönnun LEGO-þjarka sem og rannsóknarverkefni og lausnum á flóknum viðfangsefnum af margvíslegu tagi.

Þegar upp var staðið reyndust Garðálfarnir úr Garðaskóla sigurvegarar keppninnar og því krýndir Legomeistarar 2019. Liðið hyggst skella sér til Hróarskeldu í lok nóvember til að keppa fyrir Íslands hönd í Norðurlandakeppni FIRST LEGO League. Þess má geta að Garðaskóli hefur einu sinni áður sigrað í keppninni.

Að auki voru veitt verðlaun fyrir bestan árangur í einstökum hlutum keppninnar. Þar hlutu eftirtalin lið verðlaun:

Liðsheildin: Garðálfarnir í Garðaskóla í Garðabæ
Rannsóknarverkefnið: The Einsteins frá Vogaskóla í Reykjavík
Forritun og hönnun vélmennis: Citycyborgs frá Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.
Vélmennakappleikur: Legolads frá Lundarskóla á Akureyri

Fleiri myndir frá keppninni má nálgast á myndavef Háskólans.

Garðálfarnir hampa sigurverðlaununum