Skip to main content
9. október 2017

Flauta og fagott á háskólatónleikum 11. október

Björg Brjánsdóttir flautuleikari og Bryndís Þórsdóttir fagottleikari flytja sónatínu eftir Alain Weber (frumflutningur á verkefninu hérlendis), Bachianas brasileiras nr. 6 eftir Heitor Villa-Lobos og Hugleiðingar um íslensk þjóðlög eftir Björgu á háskólatónleikum miðvikudaginn 11. október. Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og verða þeir í Kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Björg Brjánsdóttir stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan framhalds­prófi vorið 2012. Þar naut hún leiðsagnar flautuleikaranna Hall­fríðar Ólafsdóttur og Magneu Árnadóttur. Þá hélt hún til fram­halds­náms við Tónlistar­háskólann í Osló og lauk námi af einleikarabraut skólans í vor leið. Aðal­kennarar hennar voru Andrew Cunningham og Per Flem­ström. Hún stundaði einnig nám við Tónlistarháskólann í München í eitt ár þar sem kennarar hennar voru Stephanie Hamburger og Natalie Schwaabe. 

Í janúar 2014 lék Björg einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hún hefur verið auka­maður við hljómsveitina frá vorinu 2016. Hún spilar reglulega með ýmsum kammerhópum og hljóm­­sveitum hér­lendis sem erlendis samhliða kennslu og spunaleik.

Verkið Hugleiðingar um íslensk þjóðlög var samið árið 2012 að beiðni Hallfríðar Ólafs­dóttur og frumflutt í Þingvallakirkju sama sumar. Verkið hefur verið flutt á tónleikum í Bretlandi, Þýskalandi, Noregi, Tékklandi og Bandaríkjunum. Samsetning tréblásturs­hljóðfæra er frjáls en verkið hefur oftast verið flutt af tveimur flautuleikurum.

Bryndís Þórsdóttir nam fagottleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk framhalds­prófi frá skólanum vorið 2012. Leiðbeinandi hennar var Snorri Heimisson. Hún hélt þá til náms við Konunglega tónlistar­háskólann í Kaupmannahöfn en þar lauk hún námi nú í sumar. Kennarar hennar þar voru Audun Halvorsen og Sebastian Stevensson, báðir einleiks­fagottleikarar útvarps­hljómsveitarinnar dönsku. 

Bryndís hefur verið aukamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá haustinu 2013 og haustið 2016 starfaði hún með hljómsveitinni um skeið. Bryndís spilar einnig reglulega með Dönsku útvarps­hljómsveitinni, Fílharmóníusveit Kaupmannahafnar og Sinfóníu­hljómsveit Sjálands.

Björg og Bryndís hafa spilað saman frá árinu 2008, aðallega í minni kammer­hópum, svo sem tríóum og kvintettum, en einnig í hljóm­sveitum, Ungsveit SÍ, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Sinfóníu­hljómsveit Íslands. Árin 2010 til 2012 stunduðu þær samtímis nám við Tónlistar­skólann í Reykjavík og á námsárunum í Kaupmanna­höfn og Osló skiptust þær á heimsóknum til að leika saman.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Björg Brjánsdóttir flautuleikari og Bryndís Þórsdóttir fagottleikari