Skip to main content
7. febrúar 2019

Fjölþætt viðfangsefni framhaldsskóla til umræðu

Fjölþætt viðfangsefni framhaldsskóla til umræðu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsóknastofa um þróun skólastarfs og rannsóknarhópur um starfshætti í framhaldsskólum í samstarfi við veftímaritið Netlu standa fyrir ráðstefnu í tilefni af útgáfu sérrits um framhaldsskóla. Ráðstefnan verður haldin 8. febrúar í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð og hefst kl. 13.30.

Tilgangur ráðstefnunnar er að varpa ljósi á það flókna starf sem fram fer í framhaldsskólum landsins út frá mismunandi sjónarhornum, m.a. skólastjórnenda, kennara og nemenda.

Á ráðstefnunni verður fjallað um kerfið, kennsluhætti og námsumhverfi, togstreitu milli bóknáms og starfsnáms, markaðsvæðingu náms, skólaval og brotthvarf nemenda. 

Guðrún Ragnarsdóttir, lektor við Menntavísindasvið, er ein þeirra sem flytur erindi á ráðstefnunni. Guðrún mun fjalla um kviku menntabreytinga í íslenskum framhaldsskólum og sýn skólastjórnenda og kennara í níu framhaldsskólum á breytingar í kjölfar framhaldsskólalaga frá 2008 og aðalnámskrá frá 2011. „Niðurstöðurnar sýna að við innleiðingu breytinga leikur menningarmunur á milli skóla og hópa innan skólanna áberandi hlutverk. Þessi munur á sér djúpar rætur í ólíkri skólamenningu og mismunandi sögu og aldri skólanna, en einnig í ólíkum hefðum og gildum námsgreina og námsbrauta. Það sem einnig var áhugavert var að sýn og viðhorf stjórnenda og kennara innan sama skóla fór stundum ekki saman,“ segir Guðrún. 

Margar erlendar rannsóknir sýna að skólastjórnendur og kennarar gegna lykilhlutverki þegar kemur að breytingum á menntakerfum en í rannsókn Guðrúnar kom fram meiri tregða til breytinga í viðhorfum kennara en stjórnenda. „Skólastjórnendur lýstu einnig mun meira viðnámi í hópi kennara með lengstan starfsaldur en þeirra sem yngri voru. Þá reyndist vera meiri tregða til breytinga í hópi kennara sem kenndu stærðfræði og sumar starfsnámsgreinar en hjá þeim kennurum sem kenndu erlend tungumál og félagsgreinar.“

Lesa má nánar um rannsókn Guðrúnar hér

Starfshættir í framhaldsskólum

Árið 2013 hófst á vegum Rannsóknastofu um þróun skólastarfs umfangsmikil rannsókn á starfsháttum í framhaldsskólum. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á starfshætti í framhaldsskólum og þann bakgrunn og öfl sem mótar þá – með áherslu á skipulag skóla og skólastarfs, viðhorf nemenda, kennara og stjórnenda til skólastarfsins, námsumhverfi, nám og kennslu og skuldbindingu nemenda. 

Niðurstöðurnar mynda viðamikið gagnasafn sem verður aðgengilegt öðrum fræðimönnum að rannsókninni lokinni. Rannsóknarhópurinn vill með þessu stuðla að því að niðurstöður verði nýttar við skipulag þróunarstarfs í framhaldsskólum og þróun skólakerfisins í heild. 

Nokkrar greinar í sérriti Netlu um framhaldsskóla eru byggðar á gögnum úr rannsókninni. 
 

Guðrún Ragnarsdóttir, lektor við Menntavísindasvið, er ein þeirra sem flytur erindi á ráðstefnunni. Guðrún mun fjalla um kviku menntabreytinga í íslenskum framhaldsskólum og sýn skólastjórnenda og kennara í níu framhaldsskólum á breytingar í kjölfar framhaldsskólalaga frá 2008 og aðalnámskrá frá 2011.