Skip to main content
11. desember 2017

Fjölbreytt dagskrá á fullveldisafmæli

""

Háskóli Íslands tekur þátt í dagskrá aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands á næsta ári með fimm fjölbreyttum verkefnum og viðburðum. Verkefnin snerta gildi menntunar fyrir samfélag og atvinnulíf, samskipti Íslendinga og Dana, rímur og rapp og samfélagslegar áskoranir en auk þess mun Vísindavefurinn helga sérstakan flokk fullveldisárinu 1918.

Alþingi samþykkti árið 2016 þingsályktun um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Í kjölfarið tók til starfa nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að undirbúa hátíðahöld árið 2018. Nefndin auglýsti sl. haust eftir verkefnum á dagskrá afmælisársins og fimmtudaginn 7. desember sl. voru 100 verkefni sem verða á dagskrá aldarafmælis fullveldisins kynnt í Safnahúsinu við Hverfisgötu að viðstöddum fulltrúum þeirra. Háskóli Íslands er aðili að fimm þessara verkefna. 

Í fyrsta lagi mun Háskóli Íslands vorið 2018 gangast fyrir ráðstefnu um gildi menntunar fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf í fortíð, nútíð og framtíð. Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á það hvernig menntun og rannsóknir hafa áhrif á þróun samfélaga á öllum sviðum. Lögð verður áhersla á að greina hvernig unnt er að nýta menntakerfi og vísindastarf til að búa í haginn fyrir áframhaldandi efnahagslega velsæld og farsælt samfélag og styrkja þar með fullvalda lýðræðisríki á Íslandi á 21. öld. 

Í öðru lagi mun Vísindavefur Háskóla Íslands vera með verkefnið „Hvað viltu vita um 1918?“ Um er að ræða sérstakan flokk á vefsíðu Vísindavefsins sem ber heitið „1918“. Þar gefst almenningi kostur á að senda inn spurningar um hvaðeina sem tengist árinu 1918. Einnig hyggst Vísindavefurinn efna til samstarfs við nokkra grunnskóla á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu þar sem nemendum gefst kostur á að senda inn spurningar í flokkinn 1918 og fá svör sem hægt er að vinna með frekar í skólastarfi. Loks mun Vísindavefurinn efna til samstarfs við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um sérstaka áherslu á svör um handrit og handritamenningu á afmælisárinu. 

Þriðja verkefni Háskóla Íslands er fyrirlestraröðin „Á mótum danskrar og íslenskrar menningar“ sem er á vegum Mála- og menningardeildar og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Fjallað verður um efni sem borið hefur hátt í samskiptasögu landanna á síðustu öld. Alls verða átta viðburðir með fyrirlestrahaldi og í hvert sinn mun par fræðimanna, danskur og íslensku fræðimaður, fjalla um efnið út frá dönskum og íslenskum veruleika. Í tengslum við fyrirlestrana verður leitast við að fjalla um efnið á fjölbreyttan hátt, t.d. með sýningu kvikmynda og sjónvarpsmynda, söng og tónlist. 

Fjórða verkefni Háskóla Íslands er einnig á vegum Mála- og menningardeildar og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og er það rapp- og (h)ljóðlistahátíð og málþingið „Frá rímum til rapps“. Verkefnið hefur að markmiði að varpa ljósi á rapp- og (h)ljóðlist og önnur alþýðleg listform í Danmörku og á Íslandi í sögu og samtíð. Rapp er alþýðlegt listform sem ungt fólk í löndunum tveimur nýtir sér fyrir listsköpun sína til að varpa ljósi á stöðu í samfélaginu og afstöðu til þess. Varpað verður fram spurningum sem varða einkenni alþýðlegra listforma og þróun þeirra í löndunum tveimur. 

Fimmta verkefni Háskóla Íslands er fyrirlestraröð Vísindafélags Íslendinga í samvinnu við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands sem ber heitið „Frá fullveldi til framtíðar: Aðkoma vísindanna að samfélagslegum áskorunum.“ Fjallað verður um viðfangsefnið í fortíð, nútíð og framtíð og verða þrír viðburðir tengdir hverju tímabili. Einn viðburður í hverjum hluta dagskrárinnar verður haldinn við rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, á Vestfjörðum og á Akureyri, auk Háskólans á Akureyri. Hinir tveir viðburðirnir verða á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrsta hluta verður fjallað um vísindi á fyrstu öld fullveldis, í öðrum hluta um samfélagslegar áskoranir nútímans og vísindalega nálgun í úrlausn þeirra, þriðji hluti nefnist annað árhundrað fullveldis og er fyrirlestraröð og afmælisþing um áskoranir framtíðar. Dagskránni lýkur loks með þremur fræðslu- og umræðufundum auk veglegs málþings 1. desember 2018. Þingið verður jafnframt afmælishátíð Vísindafélagsins sem fagnar 100 ára afmæli þann dag. 

Að síðustu munu kennarar við Háskóla Íslands eiga verulegan þátt í útgáfu greinasafns um inntak fullveldishugtaksins sem Sögufélagið gefur út með styrk frá Alþingi. Efni bókarinnar snýst um hugtakið fullveldi, merkingu þess og þýðingu í íslensku samfélagi, hvernig fullveldisrétturinn hefur verið útfærður og iðkaður í tímans rás og hvernig tekist hefur á óskin um óskorað fullveldi þjóðarinnar og þörfin á alþjóðlegu/yfirþjóðlegu samstarfi. Meðal ritstjóra bókarinnar eru Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, og Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs. Einnig munu Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði, Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt í stjórnmálafræði, og Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði, skrifa greinar í bókina.
 

Verkefnin 100 á dagskrá aldarafmælis fullveldis Íslands voru kynnt í Safnahúsinu við Hverfisgötu á dögunum og þangað mættu fulltrúar verkefnanna.