Skip to main content
16. apríl 2019

Fimm verkefni fá styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála

Vefnámskeið í íslensku sem öðru máli á snjalltækjum fyrir 5-7 ára börn, stuðningur við verkefnavinnu stúdenta af erlendum uppruna og verkalýðsfélög og erlent starfsfólk í ferðaþjónustu eru meðal rannsókna og þróunarverkefna innan Háskóla Íslands sem hlutu nýverið styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Hannesarholti þann 12. apríl sl. Alls fékk 21 verkefni styrk úr sjóðnum að þessu sinni og nam heildarupphæð styrkjanna 24 milljónum króna en það er rúmlega tvöfalt hærri upphæð en veitt hefur verið úr sjóðnum undanfarin ár.

Fram kemur á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins að sjóðnum sé ætlað að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Sérstök  áhersla var á það í ár að styrkja verkefni í þágu barna og ungmenna og rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast virkri þátttöku innflytjenda og sýnileika þeirra.

Alls fengu starfsmenn Háskóla Íslands fimm styrki úr sjóðnum:
-    Ritver Menntavísindasviðs Háskóla Íslands hlaut 400 þúsund króna styrk til þróunarverkefnisins „Stuðningur við verkefnavinnu stúdenta af erlendum uppruna“.
-    Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent við Menntavísindasvið, hlatu 700 þúsund króna styrk til rannsóknar sem ber heitið „Máltaka þriggja ára barna með íslensku sem annað mál og áhrif söngiðkunar á framvindu og færni“.
-    Ína Dögg Eyþórsdóttir, verkefnisstjóri á Matsskrifstofu Háskóla Íslands – ENIC/NARIC á Íslandi, hlaut 700 þúsund króna styrk til þróunarverkefnis sem snýr að kortlagningu á verkferlum á mati á fyrra námi innflytjenda.
-    Íris H. Halldórsdóttir aðjunkt og Magnfríður Júlíusdóttir lektor, báðar við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, hljóta 750 þúsund króna styrk til rannsóknarinnar „Verkalýðsfélög og erlent starfsfólk í ferðaþjónustu“.
-    Birna Arnbjörnsdóttir prófessor og Halldóra Þorláksdóttir verkefnisstjóri hlutu 2,5 milljóna króna styrk fyrir hönd Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Icelandic Online til þess að þróa vefnámskeið í íslensku sem öðru máli fyrir snjalltæki sem ætlað er 5-7 ára börnum.

Styrkhafar úr þóunarsjóði innflytjendamála ásamt ráðherra og fulltrúum sjóðsins.