Fengu Gulleggið fyrir hugleiðslu í sýndarveruleika | Háskóli Íslands Skip to main content

Fengu Gulleggið fyrir hugleiðslu í sýndarveruleika

5. nóvember 2018
""

Hugmynd um hugleiðsluapp í sýndarveruleika, FLOW VR, varð hlutskörpust í samkeppninni um Gulleggið, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups, árið 2018. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi laugardaginn 3. nóvember. 

Frumkvöðlakeppnin Gulleggið á sér tíu ára sögu en henni er ætlað að gefa frumkvöðlum tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja. Gulleggið er haldið á vegum Icelandic Startups, m.a. í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst auk fjölmargra lykilaðila í íslensku atvinnulífi. 

Rúmlega 130 hugmyndir bárust í samkeppnina í ár og sóttu þátttakendur bæði námskeið og fengu þjálfun í mótun viðskiptahugmynda. Á endanum voru tíu hugmyndir valdar til þátttöku í úrslitum Gulleggsins og tóku aðstandendur þeirra bæði þátt í vinnusmiðjum og kynningarkvöldi í aðdraganda úrslitanna sem fram fóru 3. nóvember í Háskóla Íslands. Þar voru hugmyndirnar kynntar fyrir dómnefnd sem valdi á endanum þrjú verkefni sem hlutu verðlaun í samkeppninni.

Sem fyrr segir hlaut hugmyndin FLOW VR Gulleggið að þessu sinni en en um er að ræða app sem býður upp á áhrifaríka hugleiðslu í alltumlykjandi sýndarveruleika. Aðstandendur hugmynarinnar hlutu eina milljón króna í verðlaunafé frá Landsbankanum auk ráðgjafatíma hjá Marel og þátttöku í Aðallínu-Útlínu verkefni Íslandsstofu í aukaverðlaun.

Í öðru sæti varð hugmyndin Greiði sem er app og markaður fyrir öll möguleg verk sem finnast í samfélaginu. Þar geta verkkaupar auðveldlega leitað að fjölbreyttri þjónustu, fundið verktaka í málið, borið saman verð og pantað þjónustu á skilvirkan máta. Aðstandendur Greiða hlutur hálfa milljón króna í verðlaunafé frá Landsbankanum.

Í þriðja sæti var hugmyndin Eirium sem halut 300 þúsund krónur í verðlaun frá Landsbankanum. Eirium þróar dreifðan hugbúnað sem eykur gegnsæi, traust og nýtni í því fjármagni sem lagt er til hjálparstarfs og neyðar- og þróunaraðstoðar um allan heim.
Við þetta má bæta að sérstök kosning fór fram meðal almennings og var hugmyndin 9am Iceland val fólksins. Um er að ræða hugbúnaðarlausn sem mun hjálpa fólki á leið um landið að nálgast samþættar upplýsingar um norðurljós, veður, færð og áhugaverða staði með því að birta gögn frá viðurkenndum stofnunum á einföldu, sérsníðanlegu og gagnvirku korti.
 

Aðstandendur vinningstillagnanna þriggja ásamt fulltrúum frá Icelandic Startups og samstarfsaðilum.
Aðstandendur sigurtillögunnar FLOW VR voru að vonum afar ánægðar eftir að þær höfðu tekið við verðlaunum úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands.
Rektor ávarpar gesti við úrslit Gulleggsins á Háskólatorgi.

Netspjall