Skip to main content
26. september 2023

Farsæld og menntun á Menntakviku í ár  

Farsæld og menntun á Menntakviku í ár   - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hegðun og líðan barna á Íslandi, bóknám og starfsnám í framhaldsskólum, netnotkun og miðlalæsi barna, menntamál innflytjenda og tækifæri og framtíðarsýn í skapandi greinum er meðal þess sem fjallað verður um á Menntakviku, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, sem fer fram dagana 28. og 29. september í húsnæði sviðsins í Stakkahlíð. Ráðstefnan er öllum opin og ókeypis. 
  
Menntakvika hefur fyrir löngu unnið sér sess sem ein af meginráðstefnum hvers árs í menntavísindum en þar miðlar bæði fræðafólk og starfsfólk innan menntakerfisins nýjustu rannsóknum og öðru sem er efst á baugi í menntavísindum og á tengdum sviðum hverju sinni.  
  
Yfirskrift Menntakviku í ár er Menntastefna og farsæld og alls verða flutt 225 erindi í 56 málstofum á ráðstefnunni. Auk ofangreindra umfjöllunarefna snerta erindin m.a. græna framtíð og farsæld barna, heilsuhegðun, hreyfingu og heilsu ungmenna, skólaumhverfið á tímum heimsfaraldurs, leikskóla- og frístundastarf frá ýmsum sjónarhornum og skólastarf til velfarnaðar. 

     

Fleiri stutt kynningarmyndbönd fyrir Menntakviku
  
Ráðstefnan verður sett með opnunarmálstofu fimmtudaginn 28. september kl. 14:00- 16:30 í Bratta í Stakkahlíð. Á málstofunni verður rýnt í tengsl menntastefnu og farsældar en mikil deigla er í íslensku menntakerfi um þessar mundir þar sem lögð er áhersla á heildstæða samvinnu um farsæld og menntun barna og ungmenna. Streymt verður frá opnunarmálstofunni.
  
Aðalfyrirlesari á málstofunni er  Gita Steiner-Khamsi, prófessor í samanburðar- og alþjóðamenntun við Columbia-háskóla, en erindi hennar ber yfirskriftina „The use and abuse of research evidence for policy and planning in education“. Í framhaldi af erindi hennar verður boðið upp á málstofu og pallborðsumræður þar sem Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra flytur ávarp og fræðafólk innan HÍ og fólk af vettvangi flytur erindi. Dagskrá fimmtudagsins lýkur svo á afhendingu styrkja til doktorsnema og fræðimanna úr Þuríðarsjóði og Steingrímssjóði. 
  
Málstofur og erindi Menntakviku fara að öðru leyti að mestu fram föstudaginn 29. september eins og sjá má  sjá dagskrána hér.  
  
Ráðstefnan er opin öllum og aðgangur ókeypis. 

Allar nánari upplýsingar eru að finna á vefsíðu Menntakviku
 

""