Skip to main content
8. október 2019

Árangur lokuskiptaaðgerða batnað umtalsvert á Íslandi

Frá skurðaðgerð

Árangur lokuskiptaaðgerða vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi hefur batnað umtalsvert á undanförnum 15 árum sem birtist m.a. í mun færri fylgikvillum í kjölfar aðgerða. Þetta sýnir ný rannsókn íslenskra vísindamanna sem var að birtast í vísindatímaritinu Journal of Cardiac Surgery. Greinin er samstarfsverkefni hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala og Læknadeildar Háskóla Íslands. 

Ósæðarlokuskipti eru önnur algengasta hjartaaðgerðin sem framkvæmd er á Vesturlöndum en árlega eru gerðar hátt í 60 slíkar aðgerðir hér á landi. Um er ræða umfangsmikla aðgerð sem tekur 4-5 klst. Notast er við hjarta- og lungnavél og hjartað stöðvað, kölkuð ósæðarlokan fjarlægð og nýrri loku komið fyrir sem í flestum tilvikum er loka úr kálfi eða svíni. Lokublöðin kalka þannig að opið út í ósæðina þrengist sem gerir hjartanu erfiðara að dæla blóði út í líkamann. Án meðferðar eru horfur sjúklinga verri en í tilvikum margra krabbameina en á hinn bóginn skila fáar skurðaðgerðir jafnmikilli bót á lífsgæðum og bættum lífshorfum. Ljóst er að með fjölgun í hópi aldraðra hér á landi mun þessum aðgerðum fjölga umtalsvert á næstu áratugum. Rannsóknir á gagnsemi og árangri þessara aðgerða eru því afar mikilvægar.
 

Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni læknisins Sindra A. Viktorssonar við Læknadeild Háskóla Íslands en leiðbeinandi hans er Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir, sem jafnframt stýrði rannsókninni. MYND/Kristinn Ingvarsson

Samtals náði rannsóknin til 587 sjúklinga sem fóru í aðgerðina á 15 ára tímabili, frá 2002 til 2016. Með tölfræðilíkönum voru afdrif sjúklinganna metin, sér í lagi þróun í tíðni fylgikvilla og lifun. Rannsóknin er einstök að því leyti að hún náði náði allra sjúklinga sem gengust undir aðgerðina hjá heilli þjóð á þessu tímabili og var hægt að fylgja öllum sjúklingunum ítarlega eftir sem er sjaldgæft í sambærilegum rannsóknum erlendis.

Í ljós kom að árangur aðgerðanna hefur batnað stöðugt síðastliðin 15 ár, sem sést á því að fylgikvillum á borð við bráða nýrnabilun, hjartsláttaróreglu og miklar blæðingar hefur fækkað umtalsvert. Þá voru alvarlegir fylgikvillar eins og sýking eða gallar í ígræddu lokunni afar sjaldgæfir. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður, bæði fyrir þá sem koma að meðferðinni hér á landi en sérstaklega sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni læknisins Sindra A. Viktorssonar við Læknadeild Háskóla Íslands en leiðbeinandi hans er Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir, sem jafnframt stýrði rannsókninni.

Greinina  má nálgast hér.

Frá ósæðarlokuskiptaaðgerð á Landspítala.