Skip to main content
17. nóvember 2019

Allt samfélagið þarf að vinna saman gegn fátækt

„Ég hef frá fyrsta degi verið sátt við heimsmarkmiðin, hef þá skoðun að markmið sem þessi virki sem hvati fyrir stjórnmálamenn. Almenningur og fjölmiðlar geti þá á upplýstan hátt veitt betra aðhald varðandi mjög mikilvæg málefni sem skipta okkur öll máli.“

Þetta segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjáparstofnun kirkjunnar, sem mun tala um fátækt ásamt fræðafólkinu Sigrúnu Ólafsdóttur, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, Berglindi Rós Magnúsdóttur, dósent við Deild menntunar og margbreytileika og Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra og prófessor við Hagfræðideild. 

Erindi þeirra allra eru í nýrri röð sem Háskóli Íslands hefur hrint af stað og nefnist Háskólinn og heimsmarkmiðin. Þar eru krufin helstu viðfangsefni sem þjóðir heims standa frammi fyrir og tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Framúrskarandi fræðimönnum frá öllum fræðasviðum Háskólans er teflt fram ásamt lykilfólki úr íslensku samfélagi til að ræða heimsmarkmiðin.

Á næsta fundi, sem verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 19. nóvember kl. 12, verður fyrsta heimsmarkmiðið í háskerpu en það snýst um að útrýma fátækt í allri sinni mynd, alls staðar, eigi síðar en árið 2030.

„Með því að breyta pólitískum áherslum þá er hægt að koma í veg fyrir fátækt og hungur. Það er mjög mikilvægt að bændur, vísindamenn og stjórnmálamenn taki höndum saman og vinni að lausn á gróðureyðingu og finni út á hvern hátt hægt verði að fæða þær þjóðir heims sem búa við mesta fátækt,“ segir Vilborg. 

Hver dagur er áskorun

Vilborg er í miklum tengslum við fátækt að því marki að hún heldur utan um innanlandsstarf hjálparstarfsins og því hittir hún á degi hverjum fólk sem býr við fátækt á Íslandi. 

„Eftir viðtal og greiningu þá reynum við að aðstoða á þann hátt sem við getum. En við höfum alltaf í huga á hvern hátt er hægt að valdefla og að allir hafi möguleika til sjálfshjálpar,“ segir Vilborg. 

„Hver dagur er áskorun og getur verið flókinn og erfiður en að sama skapi þá getur þetta verið mjög gefandi. Við erum t.d. með mörg og misjöfn virkniverkefni.  Sem dæmi þá erum við með tveggja ára verkefni fyrir konur sem eru öryrkjar og saumaverkefni fyrir sextíu konur sem eru innflytjendur.“

Vilborg er með próf í þroskaþjálfun frá Íslandi og í félagsráðgjöf frá Háskólanum í Óðinsvéum í  Danmörku. Hún lauk svo þriggja anna námi í stjórn og stjórnsýslu frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún segir að þessi menntun hafi gert allt hennar starf mun auðveldara. „Ég er með frábæra verkfærakistu úr náminu sem nýtist vel,“ segir hún. „Það að vera félagsráðgjafi gerir það að öll samskipti við þá sem koma eru fagleg frá fyrsta viðtali og heildarsýn ávallt í farteskinu.“

„Það sem snýr að okkur almenningi er að breyta allri neyslu og því hvernig við göngum um  þau auðæfi sem við höfum.  Við verðum t.d. að líta á mat sem auðæfi og hætta að henda. Valdefling kvenna er mjög mikilvæg og með aukinni menntun þeirra þá getum við breytt mörgu á skemmri tíma,“ segir Vilborg.

Allir þurfa að vinna saman

Aðstæður þeirra sem Vilborg vinnur með eru oft gríðarlega erfiðar og hún segist þurfa reglulega handleiðslu til að halda áfram. „Vinnufélagarnir eru líka góðir og það er nauðsynlegt að hugsa alltaf út fyrir kassann. Og það mikilvægasta er að hlusta á þá sem til okkar leita. Vera  forvitin um samfélagið og hafa skoðanir á þeim málefnum sem snerta þennan málaflokk.“

Vilborg segir að til að heimsmarkmiðið um að eyða fátækt náist, ásamt öðrum markmiðum Sameinuðu þjóðanna, þurfi allt samfélagið að vinna saman. „Það sem snýr að okkur almenningi er að breyta allri neyslu og því hvernig við göngum um  þau auðæfi sem við höfum.  Við verðum t.d. að líta á mat sem auðæfi og hætta að henda. Valdefling kvenna er mjög mikilvæg og með aukinni menntun þeirra þá getum við breytt mörgu á skemmri tíma.“

Vilborg bendir einnig á að nauðsynlegt sé að draga úr fólksfjölgun og með menntun fyrir alla verði meiri möguleikar á samvinnu okkar allra, „sama hvar við búum á þessari jörð sem undanfarið hefur einhvern veginn minnkað mikið þar sem hún er í hættu stödd. Ég hef trú á að sú vitneskja sem er til staðar núna auki möguleika okkar að ná fyrsta heimsmarkmiðinu fyrir 2030.“       

Stærstu viðfangsefni samtímans

Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sautján heimsmarkmið sem lýsa stærstu viðfangsefnum og helstu áskorunum sem þjóðir heims standa nú frammi fyrir. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa skuldbundið sig til að innleiða markmiðin sautján bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra árið 2030. Viðburðaröðin nýja er helguð þessum markmiðum og er hún haldin í samvinnu við Stjórnarráðið. 

Gríðarlega mikilvægt er að sérfræðiþekking og rannsóknir séu nýttar til að leita lausna á þeim viðamikla vanda sem heimsmarkmiðin lýsa og einfaldi samfélögum að takast á við þær áskoranir sem þeim fylgja. Háskóli Íslands vill að þekkingarsköpun og rannsóknir við skólann hafi víðtæk áhrif og takist á við þær flóknu áskoranir sem Ísland og heimurinn standa nú frammi fyrir og hrindir því af stað þessari viðburðaröð sem kallast Háskólinn og heimsmarkmiðin eins og áður sagði.

Vilborg Oddsdóttir