Skip to main content
20. maí 2021

Ágóði af bóksölu til styrktar Trans vinum

Ágóði af bóksölu til styrktar Trans vinum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðstandendur bókarinnar Trans barnið - Handbók fyrir fjölskyldur og fagfólk afhentu félaginu Trans vinir 500.000 króna styrk þann 17. maí síðastliðinn, á alþjóðadegi gegn hinsegin fordómum, en það var afrakstur af sölu bókarinnar.

Við styrknum tók Birna Björg Guðmundsdóttir, formaður félagsins sem eru hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda trans barna og ungmenna á Íslandi. Félagið mun nýta styrkinn til þýðingar og útgáfu bókmennta um trans börn og ungmenni.

Að bókinni standa þau Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, Trausti Steinsson kennari og Svandís Anna Sigurðardóttir, sérfræðingur í hinsegin- og jafnréttismálum hjá Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Bókin er eftir þær Stephanie Brill og Rachel Pepper en Trausti þýddi hana, Þorgerður stýrði vinnunni og Svandís og Sigríður Birna Valsdóttir staðfærðu og löguðu að íslenskum aðstæðum. Þetta er fyrsta bók sinnar tegundar sem kemur út á íslensku.

„Bókin leiðir fjölskyldur og fagfólk í gegnum mörg grundvallaratriði fræðanna og áleiðis inn í ferðalagið sem fylgir því að eiga og ala upp trans barn eða barn með ódæmigerða kyntjáningu. Það getur verið flókið, stundum erfitt en á sama tíma þroskandi og lærdómsríkt. Tekist er á við spurningar eins og hvað kynvitund er, hvernig er að koma út, hvað kynleiðrétting er og ekki síst hvernig hægt er að bregðast við þessu öllu saman,“ segir í kynningu á bókinni sem Háskólaútgáfan gaf út.

Við afhendingu styrksins. Mynd fengin af vef Trans Vina.