Afburðanemendur við Lagadeild verðlaunaðir | Háskóli Íslands Skip to main content

Afburðanemendur við Lagadeild verðlaunaðir

28. júní 2017

Árlega eru veittar viðurkenningar til þeirra nemenda við Lagadeild HÍ sem sýnt hafa framúrskarandi árangur í námi. Síðastliðinn föstudag voru verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í móttöku Lagadeildar, en þar voru saman komnir kennarar, velunnarar Lagadeildar og nemendur sem brautskráðust frá deildinni á námsárinu 2016 - 2017.

Verðlaun fyrir hæstu einkunn í námsskeiðum 1. árs í BA-námi voru veitt Kamillu Kjerúlf sem lauk sínu fyrsta ári við Lagadeild með meðaleinkunnina 9,01. Bókaútgáfan Codex veitti í verðlaun, allar námsbækur sem félagið gefur út og notaðar eru við kennslu á öðru og þriðja námsári í BA-námi Lagadeildar. Hæstu einkunn á meistaraprófi hlaut Hildur Hjörvar með meðaleinkunnina 9,48 og var það Logos lögmannaþjónusta sem veitti henni verðlaun upp á 250 þúsund krónur. Þá hlaut Linda Ramdani verðlaun fyrir bestu meistararitgerðina en hún var valin úr þeim þrettán ritgerðum sem fengu einkunnina 9,0 eða hærra. Lögmenn Lækjargötu afhentu Lindu verðlaunafé að upphæð 250 þúsund krónur. Síðast en ekki síst var það Marta Jónsdóttir sem brautskráðist með hæstu einkunn á BA-prófi með einkunnina 8,46 og hlaut að launum 150 þúsund krónur frá Hollvinafélagi Lagadeildar. Auk þess veittu þeir Páll Hreinsson dómari við EFTA dómstólinn í Luxemburg og Róbert R. Spanó dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í Strassburg, Mörtu viðurkenningu. Verðlaunin innihéldu boð í heimsókn til dómstólanna beggja ásamt ferðakostnaði og uppihaldi.

Markmið Lagadeildar er að brautskrá framúrskarandi lögfræðinga sem eiga ríkan þátt í að efla og styrkja íslenskt réttarkerfi. Ekki er hægt að segja annað en að því markmiði hafi verið náð og það með glæsibrag. Framtíðin er björt!

Afburðanemendur stilla sér upp eftir verðlaunaafhendingu. Rútur Örn Birgisson, Hildur Hjörvar, Kamilla Kjerúlf, Linda Ramdani, Marta Jónsdóttir, Aðalheiður Jóhannsdóttir andRagnar Tómas Árnason.

Netspjall