Á sjötta tug nýdoktora heiðraður í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content

Á sjötta tug nýdoktora heiðraður í Háskóla Íslands

1. desember 2017

Fimmtíu og þrír doktorar sem brautskráðst hafa frá Háskóla Íslands á tímabilinu 1. desember 2016 til 1. desember 2017 tóku við gullmerki skólans á árlegri Hátíð brautskráðra doktora í dag. Þetta er í sjöunda sinn sem hátíðin er haldin á fullveldisdeginum í Hátíðasal skólans og viðstaddur athöfnina var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Doktorsnám við Háskóla Íslands hefur eflst mjög á síðustu árum og hefur framlag doktorsnema til rannsókna og kennslu við skólann átt sinn þátt í aukinni velgengni hans. Í samstarfi við leiðbeinendur sína leggja doktorsnemar af mörkum mikilvægan skerf til þekkingarleitar og nýsköpunar og taka virkan þátt í að efla Háskólann sem alþjóðlega rannsóknastofnun. Þetta kemur m.a. glöggt fram í góðum árangri í birtingu vísindagreina í alþjóðlegum tímaritum og með stöðu Háskólans á tveimur áhrifamestu matslistunum yfir bestu háskóla heims, Times Higher Education World University Rankings og Shanghai University Rankings, en háskólinn komst í fyrsta sinn á þann síðarnefnda nú í haust. 

Afrakstur rannsókna doktorsnema er ekki aðeins ný þekking á fjölmörgum sviðum heldur leiða verkefni þeirra einnig til þess að til verða ný sprotafyrirtæki sem auðga íslenskt atvinnulíf. Öflugur rannsóknaháskóli er frumskilyrði þess að Ísland sé samkeppnisfært í vísindum, nýsköpun og atvinnuþróun innan þekkingarsamfélags þjóðanna enda eru grunnrannsóknir ein helsta forsenda framþróunar, hagvaxtar og aukinnar velsældar. 

Háskóli Íslands hefur í yfir áratug unnið markvisst að eflingu doktorsnáms við skólann. Í stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021 er áfram haldið á þessari braut og er þar m.a. kveðið á um fjölgun styrkja til doktorsnema og margvíslegan annan stuðning við þá en nú eru um 600 doktorsnemar við skólann. Gert er ráð fyrir að á árinu 2017 muni alls 60 doktorar verja ritgerðir sínar og verður heildarfjöldi doktora sem lokið hafa námi frá Háskóla Íslands þá orðinn vel á sjötta hundrað. Efling doktorsnámsins styrkir ótvírætt stöðu Háskólans sem alþjóðlega viðurkennds rannsóknaháskóla með sterkar skyldur við íslenskt samfélag.

Doktorsnemar frá öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands tóku við gullmerki Háskólans á hátíðinni í dag. Í hópnum eru 14 karlar og 39 konur og fimm þeirra hafa lokið sameiginlegu doktorsprófi frá Háskóla Íslands og erlendum háskólum. Doktorahópurinn er afar alþjóðlegur því rúmlega fjórðungur brautskráðra doktora á tímabilinu 1. desember 2016 til 1. desember 2017 er með erlent ríkisfang. Sá hópur kemur víða að úr heiminum, frá Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og Afríku.

Hefð er fyrir því að forseti Íslands ávarpi brautskráða doktora við athöfnina og færði Guðni Th. Jóhannesson doktorunum hamingjuóskir og hvatningarorð í ræðu sinni í dag. Þá flutti Eydís Einarsdóttir, doktor í lyfjavísindum, ávarp fyrir hönd nýbrautskráðra doktora.

Háskóli Íslands færir hinum glæsilega hópi sem tók við gullmerki skólans í dag innilegar hamingjuóskir með áfangann og óskar doktorunum góðs gengis á fjölbreyttum starfsvettvangi í framtíðinni.

Yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2016 til 1. desember 2017 og verkefni þeirra má finna í meðfylgjandi bæklingi.

Nýju doktorarnir og fulltrúar þeirra ásamt forseta Íslands, rektor, aðstoðarrektorum og forsetum fræðasviða skólans.

Netspjall