Skip to main content
1. mars 2018

Á fjórða þúsund í fyrsta edX-námskeiði Háskóla Íslands

Á fjórða þúsund manns tekur þátt í fyrsta alþjóðlega netnámskeiði Háskóla Íslands sem hefst í dag en það er boðið á vegum edX sem er alþjóðlegt og leiðandi net háskóla á sviði opinna vefnámskeiða. Námskeið Háskóla Íslands er í norrænum miðaldafræðum og verða Íslendingasögurnar í háskerpu með öllum sínum undrum, æsilegum viðburðum, mögnuðum tilsvörum og litbrigðum í mannlífi. 

Þátttaka hefur farið fram úr björtustu vonum og koma nemendur úr öllum heimshornum. Stærsti nemendahópurinn kemur frá Bandaríkjunum, eða á annað þúsund manns. Tíu prósent nemenda eru Bretar, sem er fjölmennastir Evrópuþjóða, en skráðir stúdentar koma m.a. frá Mexíkó, Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Indlandi, Brasilíu, Argentínu og fjölmörgum ríkjum Evrópu. 

Hjalti Snær Ægisson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, er aðalkennari námskeiðsins. Hann segir það afar spennandi verkefni að hafa 3.350 nemendur í einu námskeiði. „Það má lengi leika sér að því að setja svona tölur í margvíslegt samhengi.  Svo ég nefni eitt dæmi er hægt að benda á að þetta er fleira fólk en allir nýnemar við Háskóla Íslands haustið 2017. Þess ber að geta að fjöldinn mun enn aukast, jafnvel þótt námskeiðið hafi þennan fjölda notenda á byrjunarreitnum er enn hægt að skrá sig eftir að það fer í loftið. Eftir að þessari sex vikna keyrslu lýkur mun námskeiðið lifa áfram á netinu um óákveðinn tíma, væntanlega í nokkur ár, og þá bætast auðvitað fleiri nemendur við.“

Haraldur Bernharðsson, dósent í miðaldafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, segir að þessar viðtökur sýni vel að íslensk miðaldafræði séu alþjóðleg fræðigrein. „Háskóli Íslands hefur starfrækt alþjóðlega meistaranámsbraut í íslenskum miðaldafræðum í á annan áratug. Árið 2012 var það námsframboð styrkt enn frekar með meistaranámsbrautinni Viking and Medieval Norse Studies,“ segir Haraldur og bætir því við að þessi mikla þátttaka taki af öll tvímæli um að áhugi á Íslendingasögunum sé mikill um víða veröld. 

Hjalti tekur í svipaðan streng og segir að Íslendingasögurnar hafi almenna og varanlega skírskotun og það sé fagnaðarefni að íslenskar menntastofnanir skuli enn í dag átta sig á mikilvægi þeirra. „Það er heiður fyrir okkur hugvísindafólk að fá að bjóða heim gestum í þessu fyrsta edX-námskeiði sem Háskóli Íslands leggur nafn sitt við.“ 

Hann segir kynningargildi fyrir Íslendingasögur og miðaldafræðin ótvírætt með þátttöku í edX en bendir á að farvegurinn hafi þó verið mjög greiður fyrir. „Rannsóknarhefðin er löng og samfelld og ólíkt því sem fólk heldur stundum eru norræn fræði eins alþjóðlegt rannsóknarsvið og hugsast getur. Íslendingasögurnar eru rannsakaðar í háskólum í Bandaríkjunum, Evrópu, Kína og Ástralíu.  Af umræðunum sem eru farnar af stað á Fésbókarsíðu námskeiðsins má ráða að þar eru allmargir sem hafa grunn í þessum bókmenntum, jafnvel fólk sem hefur lesið Íslendingasögur um árabil. Ég var síðast í gær að tala við konu í North Cumbria sem sagðist hafa byrjað á Fésbókinni bara til þess að geta fylgst með okkur.“ 

Háskóli Íslands varð hluti af edX seint á síðasta ári en netið er stofnað af bandarísku háskólunum Harvard og MIT. Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri á alþjóðavettvangi og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi.

Nemendur við Háskólann kalla í auknum mæli eftir fjölbreyttum kennsluháttum og ýmsir kennarar nota nú þegar opin netnámskeið og fylgja kennsluháttum í anda þeirra. „Samstarf edX og Háskóla Íslands er mikilvæg viðbót sem opið er bæði kennurum og nemendum skólans. Virtir háskólar um heim allan eru hluti af þessu öfluga samstarfsneti og  edX býður fjölda opinna og spennandi netnámskeiða sem nefnd hafa verið MOOC eða Massive Open Online Courses,“ segir Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu við Háskóla Íslands.  

Heimasvæði Háskóla Íslands á edX-vefsvæðinu

Heimasvæði námskeiðs Háskóla Íslands á edX

handrit