300 framhaldsskólanemar sækja Háskólaherminn í HÍ | Háskóli Íslands Skip to main content

300 framhaldsskólanemar sækja Háskólaherminn í HÍ

31. janúar 2018

Skíðaslys, HM í Rússlandi og útitónleikar í Viðey eru meðal viðfangsefna sem 300 framhaldskólanemar víða af landinu fást við í hinum árlega Háskólahermi sem fram fer í Háskóla Íslands dagana 1. og 2. febrúar.

Háskólahermirinn er nú haldinn í þriðja sinn en þar gefst framhaldsskólanemum tækifæri til að taka virkan þátt í háskólasamfélaginu og kynnast námsframboði skólans með lifandi og oft óvæntum hætti. Markmið verkefnisins er að efla frekar samstarf Háskóla Íslands við framhaldsskóla landsins og gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast starfsemi háskólans af eigin raun og um leið styðja þau í að taka upplýsta ákvörðun um nám og starf í framtíðinni.

Öll fimm fræðasvið skólans hafa undirbúið fjölbreytta dagskrá sem bæði kennarar og nemendur Háskólans standa að en lögð er áhersla á að dagskráin á sviðunum gefi mynd af hagnýtingu námsins að því loknu.   

Á Heilbrigðisvísindasviði fást framhaldsskólanemar við skíðaslys frá ýmsum hliðum heilbrigðisvísindanna, á Hugvísindasviði verður Rússland og rússnesk menning m.a. í brennidepli í ljósi þátttöku Íslands í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í sumar og þá munu þeir nemendur sem sækja dagskrá Félagsvísindasviðs takast á við skipulagningu útitónleika í Viðey út frá fjölbreyttum hliðum félagsvísindanna. Á Menntavísindasviði verður kennsla og uppeldi í forgrunni, bæði í Stakkahlíð og í íþróttaaðstöðu í Laugardal, og meðal þess sem nemendum gefst færi á að kynna sér á Verkfræði- og náttúruvísindasviði eru þéttsetin jarðlög úr náttúru Íslands, ísköld efnafræði, traustar undirstöður verkfræðinnar, eldheit jarðfræði og margt fleira.

Skráning í Háskólaherminn fór fram í gegnum vef verkefnisins fyrr í janúar og reyndist áhugi framhaldsskólanema  svo mikill að öll 300 sætin í Herminum fylltust á innan við klukkustund. Þátttökuskólarnir hafa aldrei verið fleiri, sextán talsins, en þeir eru Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Menntaskóli Borgarfjarðar, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskólinn í Mosfellsbæ, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi, Flensborgarskóli, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Tækniskólinn, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Verkmenntaskóli Austurlands, Verslunarskóli Íslands, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn að Laugarvatni og Menntaskólinn í Kópavogi. 

Dagskrá Háskólahermisins  fer fram víða á háskólasvæðinu og hver nemandi sækir fjögur af fimm fræðasviðum skólans að eigin vali. Þá verður einnig boðið upp á spjalltorg á Háskólatorgi þar sem framhaldsskólanemar geta rætt við fulltrúa Náms- og starfsráðgjafar, Skrifstofu alþjóðasamskipta, Félagsstofnunar stúdenta og Stúdentaráðs um ýmis praktísk mál sem snerta þátttöku í háskólasamfélaginu.

Upplýsingar um Háskólaherminn má finna á heimasíðu verkefsinsinsog á Facebook-síðu þess.

 

Nemendur í Hátíðasal

Netspjall