Skip to main content

Forvarnir og heilsuefling fólks með þroskahömlun

Telma Kjaran, doktorsnemi við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

„Ég mun afla gagna sem sýna með hvaða hætti er staðið að forvörnum og heilsueflingu fólks með þroskahömlun,“ segir Telma Kjaran, doktorsnemi við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, um doktorsverkefni sitt. Rannsókn Telmu felst einkum í því að skrá reynslusögur einstaklinga með þroskahömlun af heilbrigðiskerfinu í því augnamiði að afla þekkingar og skilnings á lífsstíl og heilsu þeirra.

Telma segir þekkingu og upplýsingar sem lúta að heilsuvitund fólks með þroskahömlun skorta á Íslandi. Lítið hefur verið rannsakað í þessum efnum. „Segja má að skortur á gögnum hafi verið kveikjan að rannsókninni.“

Telma Kjaran

Rannsókn Telmu felst einkum í því að skrá reynslusögur einstaklinga með þroskahömlun af heilbrigðiskerfinu í því augnamiði að afla þekkingar og skilnings á lífsstíl og heilsu þeirra.

Telma Kjaran

Telma lauk nýlega meistaranámi í lýðheilsu- vísindum þar sem hún öðlaðist þekkingu á því hvað felst í forvarnarstarfi og heilsueflandi aðferðum. „Doktorsverkefnið er rökrétt framhald á því sem ég lærði í meistaranáminu. Nú einbeiti ég mér að rannsóknum um heilsu og sjálfræði fólks með þroskahömlun.“

Fatlað fólk á samkvæmt alþjóðasamningum rétt til viðeigandi fræðslu og stuðnings ásamt rétti til þess að njóta góðrar heilsu án mismununar vegna fötlunar. „Rannsókninni er ætlað að veita svör við því hvernig fólk með þroskahömlun og aðrir sem tilheyra jaðarhópum samfélagsins á Íslandi upplifa þátttöku sína í tengslum við forvarnarstarf og heilsueflandi aðgerðir sem beinast að jaðarhópum almennt,“ segir hún.

Fyrstu niðurstöður Telmu benda til þess að þátttakendur rannsóknarinnar búi yfir ákveðinni þekkingu á heilsu og heilbrigði þótt enn vanti upp á fræðslu til þeirra. „Ekki aðeins fræðslu um þá þætti sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu heldur fræðslu um úrræði og framboð um heilsueflandi þætti. Þessi fræðsla myndi meðal annars skila sér í auknu sjálfstæði einstaklinganna ásamt auknum lífsgæðum,“ segir Telma að lokum.

Leiðbeinandi: Guðrún V. Stefánsdóttir, dósent við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild.