Skip to main content

Sérkenni íslenskra fugla

Snæbjörn Pálsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild

Fuglar himinsins hafa löngum vakið athygli manna fyrir fegurð og ekki síður hitt, að sigrast, að því er virðist, um stund á þyngdaraflinu. Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr, sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu, í sumardal að kveða kvæðin þín, orti þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson en hann skoðaði líka fugla með augum fræðimannsins. Á námsárunum skrifaði hann og þýddi greinar um náttúruvísindi og hélt hinn 7. febrúar árið 1835 fyrirlestur um fugla fyrir landa sína í Kaupmannahöfn. Í kjölfar hans siglir nú vísindamaðurinn Snæbjörn Pálsson sem hefur mikinn áhuga á sérkennum íslenskra fugla.

„Rannsóknin mín snýst um mat á þróunarlegri sérstöðu nokkurra deilitegunda fugla á Íslandi,“ segir Snæbjörn Pálsson sem er sérfræðingur í stofnlíffræði, þróunarfræði og stofnerfðafræði. Hann hefur í rannsóknum sínum skoðað aðgreiningu einstaklinga innan tiltekinna fuglategunda hér, hvað varðar erfðaefni og útlit, frá öðrum deilitegundum innan sömu tegundar annars staðar.

Snæbjörn Pálsson

„Rannsóknin mín snýst um mat á þróunarlegri sérstöðu nokkurra deilitegunda fugla á Íslandi.“

Snæbjörn Pálsson

Deilitegundarhugtakið er notað þegar einstaklingar sömu tegundar eru það ólíkir að ástæða þykir til að skipta henni í mismunandi undirtegundir. Erfðafræðileg aðgreining slíkra hópa getur hafa orðið hvort sem er vegna ólíkra umhverfisskilyrða eða þess að þeir hafa lengi verið aðgreindir landfræðilega.

Spurningin sem þeir Snæbjörn leitar svara við er hvort aðgreining deilitegundanna á Íslandi endurspegli slíka sögulega æxlunarlega einangrun stofna innan Evrópu eða hraða afbrigðamyndun sem væri þá knúin áfram af umhverfisskilyrðum og náttúrulegu vali eða jafnvel komin til vegna tilviljunarkenndra áhrifa sem búast má við í litlum stofnum.

„Íslenskt lífríki einkennist af tegundafæð og nánast allar tegundir hafa numið hér land eftir síðasta kuldaskeið, fyrir um tíu þúsund árum,“ segir Snæbjörn. „Fuglar á Íslandi hafa nokkra sérstöðu meðal tegunda hér á landi því að óvenjumikið er um deilitegundir sem eru bundnar við Ísland.“

Í nýrri þáttaröð um Fjársjóð framtíðar förum við með Snæbirni í arnarvarp en hann hefur stundað rannsóknir á frjósemi hafarna um nokkurt skeið. Þáttaröðin er sýnd á RÚV en hún er helguð rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands.