Skip to main content

Frjósemi hafarna

Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Fátt er tignarlegra í íslenskri náttúru en haförn á lágflugi enda er vænghafið gríðarlegt og ekki að undra að hann sé gjarnan kallaður konungur fuglanna. Haförninn er líka mjög sjaldgæfur og það eru ekki allir Íslendingar svo lánsamir á lífsleiðinni að sjá þennan magnaða ránfugl. Styrkur arnarins og stærð hans hefur skipað honum veglegan sess í sögunni og hann hefur ratað í fjölda skjaldarmerkja víða um heim, ekki síst í Evrópu.

Örninn hefur þannig verið útbreitt tákn fyrir vald, veraldlegt og guðdómlegt. Hjá Rómverjum var örninn t.a.m. tákn guðsins Júpíters og síðar merki keisarans sjálfs. Hjá Karli mikla varð örninn skjaldarmerki þýskra keisara og miklu síðar notuðu nasistar örninn sem eitt sitt helgasta tákn.

Íslenski haförninn hefur ratað í ýmis merki en í rauninni hafa ekki allir hrifist af þessum kröftuga fugli og kennt honum um að valda usla í æðarvarpi og að drepa lömb. Haferninum á Íslandi var enda nánast útrýmt í byrjun síðustu aldar.

Snæbjörn Pálsson

Styrkur arnarins og stærð hans hefur skipað honum veglegan sess í sögunni og hann hefur ratað í fjölda skjaldarmerkja víða um heim, ekki síst í Evrópu.

Snæbjörn Pálsson

Þrátt fyrir friðun árið 1914 fór stofninn ekki að stækka fyrr en upp úr 1968 þegar hætt var að eitra fyrir ref. Vöxtur stofnsins er nú hægur og frjósemi hans minni en annars staðar á Norðurlöndum. Nú fer fram greining á áhrifum lítillar stofnstærðar hafarnarins og skyldleikaæxlunar á erfðabreytileika og frjósemi þessa fugls. Í þáttaröðinni um Fjársjóð framtíðar förum við í arnarhreiður með Snæbirni Pálssyni, prófessor í stofnlíffræði, sem rannsakar nú haförninn okkar íslenska. „Skilningur á erfðafræði lítilla stofna er mikilvægur fyrir náttúruvernd og þróunarfræði,“ segir Snæbjörn, „en þekking á íslenska hafarnarstofninum er góð, blóðsýnum hefur verið safnað síðustu 15 ár og hamir eru til á náttúrufræðisöfnum frá miðri 19. öld. Greining á erfðamengjum og skyldleika milli fugla gerir okkur kleift að meta tengsl þeirra við varpárangur og stofnstærð.“

Snæbjörn segir að minni frjósemi hafi greinst með auknum skyldleika. Það hafi verið metið út frá breytileika endurtekinna DNA-raða meðal hafarnarunga frá árinu 2001 til 2011 á Íslandi. „Athugunin hefur verið útvíkkuð með nýjum greiningum sem byggja á þúsundum breytilegra sæta víðs vegar úr erfðamengi fuglanna. Einnig hafa erfðamengi tveggja fugla verið raðgreind hjá Íslenskri erfðagreiningu og fleiri verða skoðuð. Þetta er efniviður í rannsóknir næstu ára og vonandi eitt doktorsverkefni,“ segir Snæbjörn.

Að hans sögn eru margar tegundir lífvera í útrýmingarhættu vegna minnkandi stofnstærða þar sem skyldleiki eykst. „Rannsóknin okkar varpar ljósi á þá þætti sem skipta þar máli, t.d. breytileika og áhrif náttúrulegs vals. Auk þess fást upplýsingar um þá þætti í líffræði hafarna sem skipta máli og nýta mætti við verndun þeirra.“

Í fjórða þættinum í röðinni um Fjársjóð framtíðar geturðu slegist í för með vísindamönnum Háskóla Íslands í arnarvarp.