Skip to main content

Fálkinn og sníkjudýrin

Karl Skírnisson, líffræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Valur er á veiðum, vargur í fuglahjörð, veifar vængjum breiðum, vofir yfir jörð. Svona orti þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson um Íslandsfálkann sem er einn örfárra ránfugla sem verpir hér að staðaldri. Öldum saman hefur fálkinn þótt einstök gersemi og auðkýfingar hafa sumir keppst við að hafa þá tamda í eignasafni sínu. Margir kannast við fréttir af óprúttnum mönnum sem hafa komið hingað til þess eins að ná í unga eða egg fálkans með það í huga að selja á alþjóðlegum svörtum markaði. Þessi áhugi á Íslandsfálkanum helgast ekki síst af því að hann er stærsta fálkategund heims og er einstaklega sjaldgæfur þótt hann teljist reyndar ekki í útrýmingarhættu.

Karl Skírnisson

Að sögn Karls auka þessar rannsóknir þekkingu á sníkjudýrafánu Íslands, útbreiðslu tegundanna og sjúkdómunum sem sum sníkjudýrin valda.

Karl Skírnisson

Fuglafræðingar ætla að í íslenska fálkastofninum séu á annað þúsund fuglar og að varppörin séu á fjórða hundrað. Fálkinn er strangfriðaður en engu að síður kemur fyrir að hann finnist dauður á víðavangi og tilvik eru um að högl hafi fundist í dauðum fuglum. „Þeim sem finna veika eða dauða fálka er ætlað að koma þeim á Náttúrufræðistofnun Íslands,“ segir Karl Skírnisson, líffræðingur við Tilraunastöðina að Keldum. „Árlega berast þangað margir fálkar og ákváðum við Ólafur Karl Nielsen, fuglavistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, að rannsaka sníkjudýrin í þessum efniviði. Mjög litlar rannsóknir hafa verið gerðar á heilbrigði fálkans til þessa. Ekki bara hér heldur líka erlendis,“ segir Karl Skírnisson.

Kveikjan að rannsóknum þeirra Karls og Ólafs er nokkuð sérstök. „Á fjörur okkar rak nýverið danskan stúdent sem var að leita sér að námsverkefni þannig að við brettum upp ermarnar saman og réðumst á fullar frystikistur. Lokið hefur verið við MS-ritgerðina og fyrstu niðurstöður liggja fyrir,“ segir Karl.

Í þeim kemur fram að greindar hafi verið 14 tegundir sníkjudýra í þeim 62 fuglum sem voru til rannsóknar. „Helmingur tegundanna lifir utan á fuglinum. Þar er um að ræða fiðurmítil, fló, lúsflugu og tvær naglúsategundir og jafnmargar tegundir blóðmítla. Afgangurinn er svo ögður, bandormar og þráðormar sem lifa innan í fuglinum, í koki og loftsekkjum. Flest sníkjudýrin lifa þó í meltingarvegi fálkans. Nokkrar tegundir til viðbótar eru ógreindar en margar þeirra eru ættaðar úr bráð fálkanna,“ segir Karl.

Að hans sögn auka þessar rannsóknir þekkingu á sníkjudýrafánu Íslands, útbreiðslu tegundanna og sjúkdómunum sem sum sníkjudýrin valda. „Meðal sjúkdómsvalda er ormur í koki sem dregur suma fálka til dauða á fyrstu árum ævinnar. Á Íslandi eru aðstæður til sníkjudýrarannsókna á margan hátt hagstæðar því hér eru persónur og leikendur á sviðinu mun færri en erlendis og einfaldara fyrir vikið að sjá samhengi, til dæmis þegar verið er að ráða í flókna lífsferla. Aukin þekking á sjúkdómum og sjúkdómsvöldum á Íslandi er grunnur að betri skilningi á líffræði viðkomandi tegunda,“ segir Karl.

Tengt efni