Býr til rithöfunda | Háskóli Íslands Skip to main content

Býr til rithöfunda

Rúnar Helgi Vignisson, dósent við Íslensku- og menningardeild

Ritlist er í boði sem aukagrein í grunnnámi og sem meistaranám. Aukagreinin er hugsuð sem almennari þjálfun í ritsmíðum en í meistaranáminu er markvisst unnið að því að búa til rithöfunda,“ segir Rúnar Helgi Vignisson, dósent og umsjónarmaður náms í ritlist sem notið hefur vaxandi vinsælda innan skólans.

Sérstök inntökunefnd, skipuð Rúnari og fulltrúum frá Rithöfundasambandi Íslands, sér um að velja inn nemendur í meistaranámið á grundvelli innsendra handrita og hefur tæpur helmingur umsækjenda hlotið aðgang. Spurður út í vinsældir námsins segir Rúnar talsverða þörf fyrir námið hjá bókaþjóðinni. „Fólki líður vel hjá okkur og finnst gott að eignast samfélag um ritstörf sín. Útskrifaðir nemendur hafa svo borið náminu fagurt vitni, ekki síst með verkum sínum,“ segir hann, en frá árinu 2008 hafa nemar sent frá sér á fimmta tug verka. „Þau eru af ýmsu tagi – ljóð, skáldsögur, smásögur, sannsögur, smáprósar, leikrit, þýðingar, unglingabækur, myndasögur. Nemendur hafa líka komið við sögu flestra helstu bókmenntaverðlauna landsins, hreppt Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, Íslensku barnabókaverðlaunin og Bóksalaverðlaunin og fengið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna.“

Rúnar Helgi Vignisson

„Fólki líður vel hjá okkur og finnst gott að eignast samfélag um ritstörf sín. Útskrifaðir nemendur hafa svo borið náminu fagurt vitni, ekki síst með verkum sínum.“

Rúnar Helgi Vignisson

Námið skiptist í ritsmiðjur og lesnámskeið. „Þetta eru síamstvíburar. Í kennslunni leggjum við mikla áherslu á samtalið vegna þess að það kveikir hugmyndir og þroskar tilfinningu fyrir ýmsum þáttum ritstarfa. Af sjálfu leiðir að samfélagið í ritlistinni er dýrmætt og þar byggjum við upp traust og trúnað til að þátttakendur geti unnið sem best saman að því að bæta textana sína og næra sköpunargleðina.“

En er hægt að læra til rithöfundar? „Já, það er hægt en hins vegar má velta vöngum yfir því hvort hægt sé að kenna ritlist. Því svörum við með því að búa til umhverfi sem fólk getur æft sig í, gert tilraunir og mistök sem það lærir af – hraðar en ella vegna leiðsagnarinnar. Rannsóknir hafa sýnt að afreksfólk á ýmsum sviðum verður fyrst og fremst til með elju og ástundun. Í hugann koma fleyg orð Edisons um að snilligáfa væri 1% innblástur og 99% vinnusemi,“ segir Rúnar enn fremur.

Sjálfur er Rúnar afar afkastamikill rithöfundur og þýðandi og hefur m.a. unnið til Menningarverðlauna DV og verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Aðspurður segist hann vera með skáldsögu í smíðum. „Auk þess er ég að ritstýra og þýða í ritsafn sem ber vinnuheitið Smásögur heimsins og felst í að safna saman smásögum hvaðanæva úr heiminum. Fyrsta bindið er væntanlegt á árinu. Mér finnst nauðsynlegt að ég sinni sjálfur ritstörfum með fram kennslunni til þess að vera á sama báti og nemendur mínir og hafa meiru að miðla,“ segir Rúnar að endingu.

Netspjall