Skip to main content

Bræðraþel ungra karla

Jón Ingvar Kjaran, nýdoktor við Kennaradeild, og Ásta Jóhannsdóttir, doktorsnemi við Félags- og mannvísindadeild

Sameiginlegur áhugi Ástu Jóhannsdóttur, doktorsnema í félagsfræði, og Jóns Ingvars Kjaran, sem lauk doktorsprófi í menntavísindum sumarið 2014, á kynja- og hinsegin fræðum varð kveikjan að rannsóknarverkefni þar sem birtingarmyndir vináttu, kærleika og umhyggju hjá ungum íslenskum karlmönnum eru í forgrunni.

„Verkefnið snýst um að skoða hugtökin bræðraþel (e. bromance), sem vísar til náinnar vináttu karla, og umfaðmandi karlmennsku (e. inclusive masculinity), sem vísar til þess að karlar sýni tilfinningalega og líkamlega nálægð hver við annan án ótta við að verða stimplaðir samkynhneigðir. Við erum að máta þessi hugtök við þátttakendur í doktorsrannsóknum okkar. Við viljum varpa ljósi á breytingar sem orðið hafa á karlmennskuhugmyndum og við merkjum bæði hjá gagnkynhneigðum og hinsegin piltum. Að sama skapi viljum við setja þessar hugmyndir í sögulegt samhengi,“ segir Ásta.

Jón Ingvar Kjaran og Ásta Jóhannsdóttir

„Verkefnið snýst um að skoða hugtökin bræðraþel (e. bromance), sem vísar til náinnar vináttu karla, og umfaðmandi karlmennsku (e. inclusive masculinity), sem vísar til þess að karlar sýni tilfinningalega og líkamlega nálægð hver við annan án ótta við að verða stimplaðir samkynhneigðir.“

Jón Ingvar Kjaran og Ásta Jóhannsdóttir

„Við komum hvort úr sinni áttinni, annars vegar hinsegin- og kynjafræði og hins vegar kynja- og félagsfræði. Viðfangsefni okkar eru að mörgu leyti lík og við vorum að skoða reynslu og upplifanir ungra íslenskra pilta, ég með áherslu á hinsegin pilta og Ásta með áherslu á gagnkynhneigða pilta. Við ákváðum að leiða saman þessa tvo hópa þar sem margt skarast í viðhorfum þeirra til karlmennsku,“ segir Jón Ingvar þegar hann er inntur eftir kveikjunni að rannsókninni.

Frumniðurstöður benda til þess að hugtökin bræðraþel og umfaðmandi karlmennska nái ekki að mati Ástu og Jóns Ingvars yfir karlmennskuhugmyndir þátttakenda í rannsóknum þeirra. „Þrátt fyrir það merkjum við að piltar eru í auknum mæli farnir að tileinka sér umhyggjumiðaða karlmennsku sem meðal annars birtist í áherslu þeirra á að vera umhyggjusamir feður. Jafnframt teljum við að piltar hafi sterkara félagslegt net en forfeður þeirra sem birtist í því að þeir eiga trúnaðarvini þar sem rými er til að ræða tilfinningar og vonbrigði. Þetta þýðir þó ekki að hefðbundnari karlmennskuhugmyndir séu horfnar,“ segir Ásta.

„Við teljum að verkefnið hafi talsverða þýðingu fyrir samfélagið og sé gott innlegg inn í umræðuna um breyttar birtingarmyndir karlmennsku, bæði birtingarmyndir vináttu og umhyggju og aukins tilfinningalegs rýmis karla,“ segir Jón Ingvar að lokum.