Áhrif Passíusálmanna og áhrifin á þá | Háskóli Íslands Skip to main content

Áhrif Passíusálmanna og áhrifin á þá

Fritz Már Berndsen Jörgensson, Mag. theol. frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

„Ég sýni með rökum svokallaðrar áhrifasögu að sálmaskáldinu Hallgrími Péturssyni hafi verið kunnugt um að ákveðnir textar píslarsögunnar séu komnir úr Davíðssálmunum. Þannig leiði ég rök að því að Passíusálmarnir séu að hluta til byggðir á áhrifasögu Davíðssálmanna.“

Þetta segir Fritz Már Berndsen Jörgensson um lokaverkefni sitt í guðfræði en eins og margir prestlærðir menn er Fritz heillaður af Passíusálmum Hallgríms sem eru að hans mati litaðir af áhrifasögu Davíðssálma.

„Áhrifasaga snýst um það hvernig ritskýrendur hafa lesið og túlkað texta út frá mismunandi þjóðfélagslegum og trúarlegum grundvelli,“ segir Fritz, „markmið áhrifasögunnar er þannig ekki endilega að skynja meiningu textasmiðsins í upphafi heldur miklu frekar að skilja hver merking textans verður í gegnum aldirnar.“

Fritz Már Berndsen Jörgensson

„Ég sýni með rökum svokallaðrar áhrifasögu að sálmaskáldinu Hallgrími Péturssyni hafi verið kunnugt um að ákveðnir textar píslarsögunnar séu komnir úr Davíðssálmunum. Þannig leiði ég rök að því að Passíusálmarnir séu að hluta til byggðir á áhrifasögu Davíðssálmanna.“

Fritz Már Berndsen Jörgensson

Hallgrímur Pétursson var afar atkvæðamikið skáld og liggur eftir hann fjöldi sálma sem enn eru sungnir og fluttir. Passíusálmarnir eru svo sannarlega í þeim flokki. Hallgrímur fæddist árið 1614 á Höfðaströnd. Hann ólst upp á biskupssetrinu að Hólum í Hjaltadal en þrátt fyrir návígið við guðfræðina nam hann síðar járnsmíðar í Danmörku eða Þýskalandi. Hann var þó síðar vígður af Brynjólfi biskupi Sveinssyni til prests þótt hann hefði ekki lokið formlegu námi en Brynjólfur studdi hann til náms í guðfræði. Hallgrímur orti Passíusálmana þegar hann var prestur á Saurbæ í Hvalfirði en sálmarnir eru eitt frægasta höfundarverk Íslendings og hafa verið þýddir á fjölda tungumála. Hallgrímur lést árið 1674.

Fritz segir að í ritgerð sinni hafi hann viljað kanna hvernig áhrifasaga vinnur innan bóka Biblíunnar, hvernig einn texti hefur áhrif á annan og hvernig textar ritningarinnar hafa haft áhrif á líf, listir og menningu okkar, þar með talið á Passíusálmana.

„Það er fátt vitað um tildrög þess að Hallgrímur Pétursson samdi Passíusálmana sem ofnir eru út frá píslarsögu Nýja testamentisins. Hallgrímur samhæfir orðfæri píslarsögunnar við sinn samtíma sem fellur vel að hugsun áhrifasögunnar. Það var því áhugavert að kanna tengsl Davíðssálma, píslarsögunnar og Passíusálma Hallgríms,“ segir Fritz. „Ég dreg þá ályktun að Hallgrími hafi verið fullkunnugt um hvaðan tilvísanir píslarsögunnar komu. Þar með að áhrifasaga Davíðssálma hafi með beinum hætti haft áhrif á tilurð texta Passíusálmanna.“

Fritz segir að rannsóknir á áhrifasögu séu mikilvægar bæði fyrir guðfræðina sjálfa og einnig fyrir aðrar fræðigreinar þar sem fjallað er um menningu með einum eða öðrum hætti. „Passíusálmarnir voru fyrst gefnir út árið 1666 og hafa sérstakan sess á meðal þjóðarinnar og er áhrifasaga þeirra sjálfra mjög mikil. Því er það mikilvægt fyrir samfélagið í heild að rannsaka tilurð þeirra og áhrifasögu.“

Leiðbeinandi: Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.

Netspjall