Skip to main content

Ungt flóttafólk upplifir töluverðar hindranir

Maja Loncar, MA frá Félagsráðgjafardeild

Reynsla Maju Loncar sem flóttabarns varð henni innblástur að lokaverkefni til meistaraprófs í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Þar skoðaði hún tækifæri, áskoranir og vonir og væntingar ungs flóttafólks á aldrinum 18-26 ára hér á landi.

Málefni flóttamanna í Evrópu hafa verið mikið í umræðunni síðustu misseri og m.a. sett töluverðan svip á kosningabaráttu í fjölmörgum löndum víða um álfuna. Málaflokkurinn hefur lengi verið Maju mjög hugleikinn og til marks um það vann hún BA-verkefni í félagsráðgjöf um félagslega aðlögun flóttabarna. Í meistaraverkefninu vildi hún gera reynslu flóttafólks enn sýnilegri og ákvað því að beina sjónum sérstaklega að ungu flóttafólki. „Það er viðkvæmur hópur, bæði út frá aldri og félagslegri stöðu,“ segir Maja sem sjálf kom hingað til lands um aldamótin sem flóttabarn frá Króatíu.
 

Maja Loncar

„Niðurstöður mínar sýna að ungt flóttafólk upplifir töluverðar hindranir í því að taka skrefið í átt að fullorðinsárum sem felur m.a. í sér að finna góða atvinnu, klára háskólanám og hefja sjálfstæða búsetu og líf.“

Maja Loncar

Maja tók viðtöl við ungt fólk sem átti það sameiginlegt að vera með stöðu flóttamanns hér á landi. „Niðurstöður mínar sýna að ungt flóttafólk upplifir töluverðar hindranir í því að taka skrefið í átt að fullorðinsárum sem felur m.a. í sér að finna góða atvinnu, klára háskólanám og hefja sjálfstæða búsetu og líf. Þau upplifa ýmis tækifæri sem þau höfðu ekki í heimalandi sínu en hins vegar einnig áskoranir þegar kemur að félagslegum réttindum og þátttöku í íslensku samfélagi,“ segir Maja.

Um er að ræða fyrstu rannsóknina hér á landi á stöðu þessa afmarkaða hóps flóttamanna og Maja segir niðurstöðurnar samhljóða niðurstöðum erlendra rannsókna. „Rannsókn sem þessi getur átt þátt í því að bæta stuðning og þjónustu við þennan tiltekna hóp og gera þarfir hans í samfélaginu sýnilegri,“ segir hún að endingu um þýðingu rannsóknarinnar.

Leiðbeinandi: Guðbjörg Ottósdóttir, lektor við Félagsráðgjafardeild