Lýðhyglin ógnar stöðugleika | Háskóli Íslands Skip to main content

Lýðhyglin ógnar stöðugleika

Gylfi Zoëga, prófessor við Hagfræðideild

Mikið hefur verið fjallað í fjölmiðlum um uppgang lýðhyglinnar eða svokallaðs „popúlisma“ á Vesturlöndum. Nú er í gangi rannsókn innan Háskóla Íslands sem snýst einmitt um áhrif lýðhyglinnar á pólitískan veruleika og stöðugleika í vestrænum samfélögum. Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, stýrir rannsókninni en hann hefur mjög beint sjónum að orsökum bankahrunsins og að áhrifum þess á íslenskt samfélag.

„Ég valdi þetta verkefni,“ segir Gylfi, „sökum þess að kreppur geta haft alvarleg áhrif á þróun stjórnmála sem síðan hafa áhrif á efnahagslífið. Gott dæmi er kreppan á fjórða áratug síðustu aldar sem olli sundrungu og ólgu í stjórnmálum í ýmsum ríkjum. Kveikjan að rannsókninni liggur einmitt í auknum vinsældum lýðhyglisflokka á Vesturlöndum um þessar mundir sem ógna því kerfi efnahagslífs sem Vesturlönd hafa búið við síðustu áratugina.“
 

Gylfi Zoëga

„Kjósendur lýðhyglisflokka eiga það sameiginlegt að bera lítið traust til þjóðþinga og þings Evrópusambandsins. Þeir eru almennt eldri og hafa minni menntun en aðrir kjósendur“

Gylfi Zoëga

Gylfi segir að í rannsókninni sé orsaka lýðhyglinnar leitað en bestu dæmin um hana séu sigur Donalds Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og sú ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu.

Gylfi segir að fjölmargar áhugaverðar niðurstöður séu þegar komnar fram í rannsókninni en niðurstöðurnar megi taka saman á eftirfarandi hátt: „Kjósendur lýðhyglisflokka eiga það sameiginlegt að bera lítið traust til þjóðþinga og þings Evrópusambandsins. Þeir eru almennt eldri og hafa minni menntun en aðrir kjósendur,“ segir Gylfi og bætir því við að efnahagskreppur, einkum fjármálakreppur, dragi úr trausti til stofnana samfélagsins og einnig til Evrópusambandsins.

„Flokkar sem eru andvígir ESB hafa fengið aukið fylgi síðustu árin í Evrópu. Bretland er þó sér á báti og ekki líklegt að önnur ESB-ríki fylgi því út úr sambandinu.“

Gylfi segir gríðarlega mikilvægt að endurheimta traust með því að skilgreina afmörkuð markmið fyrir Evrópusambandið, svo sem á sviði hryðjuverkavarna og skattsvika og nauðsynlegt sé að ná þeim.

„Einnig þarf að láta Evrópubúa hafa meiri áhrif á ákvarðanir ESB og láta þá öðlast betri tengingu við sambandið.“

Gylfi segir að rannsókn eins og sú sem hann vinni nú að sýni fram á skýr tengsl efnahagslífs og stjórnmálaþróunar. „Rannsókn eins og þessi, og aðrar í félagsvísindum, auka skilning okkar á samfélaginu og leiða vonandi til skynsamlegri ákvarðanatöku.“