Skip to main content

Hvalahljóð til útflutnings

Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktorsnemi í líffræði við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík

„Sífellt fleiri erlendir ferðamenn fara í hvalaskoðun á Íslandi á hverju sumri og því er tilvalið að auka hrifningu þeirra með upplýsingum um sönghæfileika þessara dýra. Með aukinni þekkingu á hljóðum hvalanna, og þar af leiðandi hegðun þeirra, vonast ég til að samfélagið okkar verði meðvitaðra um það hversu ótrúlega áhugaverðir og magnaðir hvalirnir eru og sjái verðmætið sem felst í þeim, ekki bara í formi hvalkjöts,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktorsnemi í líffræði, um rannsóknir sínar sem í sumar munu geta af sér söluvöru ætlaða ferðamönnum.

Edda Elísabet Magnúsdóttir

Edda hefur frá árinu 2008 rannsakað hvalahljóð á Skjálfandaflóa með sérstökum neðansjávarhljóðupptökutækjum.

Edda Elísabet Magnúsdóttir

Edda hefur frá árinu 2008 rannsakað hvalahljóð á Skjálfandaflóa með sérstökum neðansjávarhljóðupptökutækjum. Upphaflega hugðist hún rannsaka viðveru og tegundasamsetningu hvala við Norðausturland með hljóðupptökum. „Ég komst hins vegar fljótt að því að fjölda ólíkra hljóða var að finna á upptökunum og að hægt væri að gera margt spennandi við þær. Því fór ég einnig að rannsaka breytilega hljóðmyndunarhegðun og mynstur í hljóðmyndunum hvalanna,“ segir Edda og bætir við að hljóðrannsóknirnar fylli upp í margar þær eyður sem enn finnist innan hvalafræði og sjávarlíffræði.

Edda á eftir að vinna úr töluverðum hluta gagnanna en meðal tegunda sem hún hefur heyrt í eru hnýðingur, búrhvalur, langreyður og einnig stærsta dýr jarðar, steypireyður. Þá er hnúfubakur viðloðandi Skjálfandaflóa allan ársins hring og sönghegðun hans er mjög breytileg milli árstíða. „Á vorin og fram á haust má heyra fjölbreytta hljóðmyndun frá hnúfubökum sem tengja má við fæðuöflun og félagshegðun. Þegar líður að áramótum breytist hljóðmyndun þeirra í skipulagðari tónasamsetningu sem hægt er að skilgreina sem lög eða söngva og þeir ágerast og verða fágaðri í febrúar og mars. Þessir vetrarsöngvar líkjast makaleitarsöngvum,“ útskýrir Edda sem hyggst rannsaka þennan söngelska hval enn betur.

Fyrsta varan á markað í sumar
Rannsóknirnar og reynslu sína í hvalaskoðunargeiranum hefur Edda nýtt til þess að þróa verkefni sem nefnist „Tónar hafsins“ og hlaut viðurkenningu þegar hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands voru veitt í fyrra. Verkefnið gengur út á að nýta hvalahljóðin í tónlist og búa til aðgengilegt margmiðlunarfræðsluefni um eiginleika og þýðingu hljóðanna. Það yrði síðan selt ferðamönnum í hvalaskoðun hér við land. Edda hefur m.a. átt samstarf við Norðursiglingu á Húsavík um verkefnið. „Íslenskir tónlistarmenn hafa jafnframt sýnt hljóðunum mikinn áhuga og höfum við hafið samstarf við nokkra úr þeirri stétt,“ segir Edda.

Þróun fyrstu vörunnar er langt komin. „Við munum leggja kapp á að koma vörunni, sem er skemmtilegur fræðslupakki um hvalahljóð, á markað fyrir sumarið áður en ferðamannastraumurinn í hvalaskoðunarferðir nær hámarki. Til að ná tilsettum árangri með útgáfu á öðrum vörum þarf auðvitað að útvega fjármagn en að því er unnið þessa stundina með bjartsýni og gífurlegum vilja,“ segir Edda.

Leiðbeinendur: Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Marianne Helene Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.