Skip to main content

Flygildi auka öryggi

Þorsteinn Sæmundsson, aðjunkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild 

Flygildi eru ómönnuð loftför sem unnt er að nýta á ótal vegu. Ein algengasta hagnýtingin er tengd ljósmyndun, ekki síst á stöðum þar sem mönnum reynist örðugt að komast. Mjög hefur færst í vöxt að flygildum sé beitt við ýmsa fjarkönnun, t.d. við að fylgjast með útbreiðslu gróðurs eða uppblásturs á landi og við rennsli nýrra hrauna. Á sama tíma og reglur hafa verið hertar um notkun flygilda hér á landi verða þau æ mikilvægari og ekki síst sem grundvallarbúnaður við rannsóknir. Flygildi hafa t.d. verið notuð við að rannsaka breytingar á skriðjöklum og við myndun lóna framan við jökulsporða. Þorsteinn Sæmundsson, aðjunkt og jarðfræðingur, vinnur nú að því að kortleggja fjallshlíðar umhverfis slíka jökla og notar til þess flygildi sem smíðuð eru af fyrirtækinu Svarma. Innan þess starfa m.a. frumkvöðlar sem enn eru í námi við Háskóla Íslands eða hafa nýlega lokið því. Sprotafyrirtækið sérhæfir sig í þróun á flygildum og á ýmsum fjarkönnunarbúnaði sem þeim tengist.

„Kveikjuna að þessari rannsókn má rekja til þeirra miklu umhverfisbreytinga sem eru að eiga sér stað við skriðjökla landsins,“ segir Þorsteinn, spurður um ástæðu verkefnisins.

„Jöklarnir hörfa nú hratt og þynnast og eftir standa brattar og oft óstöðugar hlíðar sem geta verið mjög hættulegar mönnum og búfé. Stór jaðarlón eru að myndast fyrir framan marga jökulsporða, sem eykur enn meir á þá hættu sem stór skriðuföll geta skapað. Með því að þróa aðferð til kortlagningar, þar sem flygildum er beitt, einfaldast kortlagningin sjálf og vöktun á landinu í framhaldinu. Auk þess er hægt að rannsaka mun nákvæmar svæði sem að öllu jöfnu eru óaðgengileg.“

Þorsteinn Sæmundsson

„Við erum að innleiða nýjar aðferðir við kortlagningu og samhliða því að bæta vöktun á hættulegum fjallshlíðum.“

Þorsteinn Sæmundsson

Þorsteinn segir að samfara þeirri miklu hlýnun, sem menn horfast nú í augu við, hafi einnig orðið gríðarlegar breytingar í fjalllendi landsins. „Nauðsynlegt er að rannsaka þessar breytingar og ég tel að Háskólinn gegni þar lykilhlutverki. Sú aðferðafræði sem við notum í þessu verkefni getur einnig nýst til slíkra rannsókna.“

Þorsteinn hefur unnið rannsóknina í samvinnu við Daniel Ben-Yehoshua, meistaranema í jarðfræði við Háskóla Íslands, og Victor Pajuelo Madrigal frá fyrirtækinu Svarma. Victor hefur stundað meistaranám í umhverfisog auðlindaverkfræði við Háskólann en meistaraverkefni hans fjallar einmitt um hvernig nýta megi landupplýsingar og loftmyndir úr flygildum til að endurheimta votlendi.

„Það er einmitt mjög mikilvægt að tengja rannsóknir á þessu sviði við atvinnulífið og ekki síst við sprotafyrirtæki sem sérhæfa sig í kortlagningu með flygildum,“ segir Þorsteinn sem er á því að rannsóknin hafi mikið gildi. „Við erum að innleiða nýjar aðferðir við kortlagningu og samhliða því að bæta vöktun á hættulegum fjallshlíðum. Þessar aðferðir geta gefið okkur miklar upplýsingar um ástand og breytingar í hlíðum sem við viljum fylgjast grannt með og þar með aukum við öryggi okkar allra.“