Skip to main content

Nýjar rannsóknir í fornleifafræði: Þróun aðferðar til að þekkja bátkuml

Nýjar rannsóknir í fornleifafræði: Þróun aðferðar til að þekkja bátkuml - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. febrúar 2023 12:00 til 13:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Stofa 023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Luna Polinelli doktorsnemi flytur erindi í fyrirlestraröðinni Nýjar rannsóknir í fornleifafræði sem Félag fornleifafræðinga og námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands standa að. Fyrirlesturinn nefnist Identifying boat burials. A case study from Dysnes in Eyjafjörður og verður fluttur á ensku. 

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 023 í Veröld miðvikudaginn 1. febrúar kl. 12-13 og er öllum opinn.

Um erindið

Á víkingaöld tíðkaðist að heygja fólk í bátum og hafa lengi verið deildar meiningar um hvernig á að túlka þennan sérkennilega sið.  Það hefur hamlað skilningi að iðulega er erfitt að vita hvort bátur hafi verið í gröf eða ekki.  Aðeins örfá dæmi eru um að bátar hafi varðveist heilir í gröfum, för eftir báta hafa furðusjaldan verið skráð nægilega vel og því er í langflestum tilvikum ekki á öðru að byggja en leifum af járnfestingum.  Vandinn er hins vegar sá að ekki eru allar járnfestingar bátsaumur og því er ekki hægt að slá því föstu að bátur hafi verið í kumli þó fjöldi festinga hafi fundist í því.  Þessi óvissa veldur því að þekkingu er mjög ábótavant um fjölda og dreifingu bátkumla og á því hefur fræðileg umræða um inntak og vægi þessa siðar strandað. Ítarleg greining á bátsaum úr tveimur ótvíræðum og vel skráðum bátkumlum á Dysnesi í Eyjafirði er liður í þróun aðferðafræði sem gerir mögulegt að bera kennsl á báta úr kumlum sem ekki hafa verið skráð jafnrækilega.  Markmiðið er að á grundvelli líkans um stærðardreifingu bátsaums verði hægt að segja af eða á um meint bátskuml og leggja fram heildstæða mynd af dreifingu þeirra í Norður Evrópu á fyrsta árþúsundi e.Kr. Slík heildarmynd er forsenda fyrir bættum skilningi á þessum grafsið. 

Luna Polinelli

Nýjar rannsóknir í fornleifafræði: Þróun aðferðar til að þekkja bátkuml