Skip to main content

Meistarafyrirlestur í tölvunarfræði - Viktor Jón Helgason

Meistarafyrirlestur í tölvunarfræði - Viktor Jón Helgason - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. júní 2020 13:00 til 14:30
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fyrirlesturinn verður á Zoom: https://eu01web.zoom.us/j/68472262798

Meistaranemi: Viktor Jón Helgason

Heiti verkefnis: Innleiðing þjónustukerfisins Jira Service Desk – Sjálfvirkni, samþætting, mælanleiki og notendaupplifun í Jira

___________________________________________

Deild: Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

Leiðbeinandi: Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

Einnig í meistaranefnd: Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

Prófdómari: Ragna Kemp Haraldsdóttir, lektor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild

Ágrip

Ljóst er að í sífellt tæknivæddari heimi verður starfsemi upplýsingatæknideilda umfangsmeiri og kallar það á aukna samvinnu og flóknara skipulag. Því er mikilvægt að rannsaka hvernig bæta megi vinnuflæðið, auka sjálfvirkni og leitast til þess að einfalda vinnu og auka framleiðni starfsfólks.

Lítið hefur verið skrifað um innleiðingu, sjálfvirkni og samþættingu kerfa eins og Jira. Núverandi rannsóknir benda til þess að skipulagsheildir hafi ýmis tækifæri hvað þá þætti varðar. Bent hefur verið á möguleika á að flokka og úthluta málum á sjálfvirkan hátt út frá þeim upplýsingum sem fram koma í málum. Þá nýtast samþættingarmöguleikar slíkra kerfa notendum þeirra vel til að vinna saman að úrlausn mála þvert á deildir.

Í þessari rannsókn var leitast til að kanna hvernig fyrirtæki á Íslandi nýta sér samvinnu- og málaskráningarkerfið Jira, ásamt því að kanna hverjar þarfir og hugmyndir notendur hafa í slíkum kerfum. Verkefnið var unnið samhliða vinnu vinnuhóps í Landsbankanum í tengslum við innleiðingu á þjónustukerfinu Jira Service Desk. Fimmtíu starfsmenn upplýsingatæknisviðs Landsbankans voru spurðir hverjar þarfir þeirra væru og hvaða hugmyndir þeir hefðu er varðar sjálfvirkni og samþættingu í málakerfum eins og Jira. Þá voru fulltrúar tíu fyrirtækja voru spurðir hvernig þau nýta sér sjálfvirkni, samþættingu og mælingar í Jira.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að fyrirtæki á Íslandi nýta sjálfvirkni að mestum hluta til að halda starfsfólki og viðskiptavinum upplýstum um framgang mála. Þau samþætta Jira við hugbúnaðarprófanir, samskiptakerfi, skjalakerfi, tímaskráningu, tölvupóstkerfi, upplýsingagreindartól, viðskiptamannakerfi, útgáfustýringartól og þjónustukerfi. Þau nota gögn og mælingar sem snúa að álagi á starfsfólk, framgangi verkefna og mæla þann tíma sem tekur að leysa mál viðskiptavina sinna.

Samkvæmt niðurstöðum úr viðtölum við starfsfólk upplýsingatæknideildar Landsbankans finnst notendum að kerfi eins og Jira eigi að vera einfalt í notkun. Notendaviðmótið eigi að vera einfalt og auðvelt að átta sig á því hvernig framkvæma eigi helstu aðgerðir í kerfinu. Þá þykir þeim mikilvægt að auðvelt sé að vinna saman að úrlausn mála þvert á deildir og að kerfið bjóði upp á þann möguleika að tengja mál saman á auðveldan hátt.