Um MA-nám í heimspeki | Háskóli Íslands Skip to main content

Um MA-nám í heimspeki

Heimspeki er kennd til meistaraprófs (120e) og doktorsprófs (180e). Meistaranám tekur að jafnaði tvö ár, en doktorsnámi má ljúka á þremur árum. Framhaldsnámsnefnd Sagnfræði- og heimspekideildar hefur umsjón með náminu.

MA-nám í heimspeki: 

Námið er fræðilegt og rannsóknatengt framhaldsnám í heimspeki. Inntökuskilyrði eru að lágmarki BA-próf með fyrstu einkunn í heimspeki sem aðalgrein eða jafngildi þess en auk þess þurfa nemendur að uppfylla nokkur önnur skilyrði. Nám í heimspeki til MA-prófs veitir einkum fræðilega þjálfun og býr nemendur undir frekari rannsóknir eða doktorsnám í heimspeki.

Nauðsynleg fylgiskjöl með umsókn um MA-nám:

a)      Ferilskrá umsækjanda: Í ferilskrá þarf að koma fram námsferill og starfsreynsla umsækjanda, þannig að ráða megi af þeim upplýsingum hvort umsækjandi hafi bakgrunn sem teljast má viðeigandi undirbúningur fyrir námið og áætlað rannsóknarverkefni.

b)      Greinargerð um markmið umsækjanda og væntingar til námsins: Hér þarf að gera grein fyrir ástæðum þess að sótt er um námið og hvert markmið umsækjanda er með því. Einnig þarf að fylgja stutt lýsing á hugmynd umsækjanda að fyrirhuguðu rannsóknarverkefni, þannig að ráða megi af lýsingunni á hvaða sviði heimspekinnar verkefnið er og hvaða kennari gæti haft umsjón með því. Fullt tillit er tekið til þess að áhugasvið nemenda geta breyst meðan á námi stendur.

c)      Prófskírteini: Með umsókn um meistaranám skal fylgja staðfest afrit af prófskírteinum og námsferilsyfirlit. Nemendur brautskráðir úr HÍ þurfa ekki að senda inn prófskírteini. Aðrir þurfa að senda staðfest afrit prófskírteina og námsferils til skrifstofu Hugvísindasviðs.

Doktorsnám í heimspeki: 

Námið er eingöngu rannsóknanám þar sem nemandinn vinnur sjálfstætt að eigin rannsóknarverkefni. Inntökuskilyrði er að lágmarki MA-próf á viðkomandi fræðasviði með fyrstu einkunn eða, eftir atvikum, sambærilegt próf í annarri tengdri grein. Doktorsnám í heimspeki á að veita víðtæka fræðilega þjálfun og undirbúning undir störf á fræðasviðinu, t.d. háskólakennslu eða sérfræðistörf.

Nánari upplýsingar um doktorsnám og umsókn um doktorsnám er að finna á vef Hugvísindastofnunar.

Nánari upplýsingar:

Kennsluskrá Háskóla Íslands.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.