Skip to main content

Metnaður fyrir hönd matvælafræðinnar

Kristberg Kristbergsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild

Árið 2014 var Kristbergi Kristbergssyni, prófessor í matvælafræði, eftirminnilegt enda hlaut hann tvenn verðlaun fyrir framlag sitt til vísindanna. Annars vegar var um að ræða svokölluð IFA Academy verðlaun, en IFA eru evrópsk samtök háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja sem vinna að rannsóknum og framþróun í matvælafræði. Hins vegar fékk Kristberg Vísindaverðlaun Rutgers Food Science Alumni sem hollvinafélag matvælafræðideildar Rutgers-háskóla í New Jersey veitir þeim félaga sem þykir hafa skarað fram úr á ferli sínum og haft áhrif á framgang matvælafræðinnar.

Kristberg Kristbergsson

„Kveikjan að þessum rannsóknum var sú að við vorum að vinna með fyrirtækinu Primex að rannsóknum á því hvernig fjölsykran kítín geti komið í veg fyrir offitu.“

Kristberg Kristbergsson

Óhætt er að segja að það hafi Kristberg gert en hann fetar nú m.a. nýjar brautir í rannsóknum sínum sem beinast að því að koma lífvirkum efnum með örferjum um líkamann.Til lífvirkra efna teljast t.d. vítamín, steinefni, andoxunarefni og ómega-3 fitusýrur og markmiðið er að koma efnunum á þá staði í líkamanum þar sem þörf er á þeim, t.d. til að vinna gegn sjúkdómum eða bæta heilsu fólks.

„Kveikjan að þessum rannsóknum var sú að við vorum að vinna með fyrirtækinu Primex að rannsóknum á því hvernig fjölsykran kítín geti komið í veg fyrir offitu. Í þeim kom fram að lítið var vitað um þessi lífvirku efni og að mörg þeirra virka lítið eða ekki eftir að búið er að einangra þau og bæta þeim í önnur matvæli,“ útskýrir Kristberg.

Því þurfti að finna nýjar leiðir til þess að ferja lífvirku efnin um líkamann. „Vandamálið við einangrun og flutning margra þessara lífvirku efna er að þegar þau hafa verið einangruð úr sínu upprunalega umhverfi þá eru þau oft mjög óstöðug og brotna niður eða hvarfast við efni í umhverfinu, eins og súrefni. Okkar rannsóknir hafa snúist um að þróa aðferðir til að einangra ákveðin lífvirk efni þannig að virkni þeirra haldist sem best og síðan að hanna svokallaðar örferjur sem má nota til að verja og flytja efnin í matvælum og á þann stað í líkamanum þar sem virkni þeirra er þörf,“ segir Kristberg um rannsóknir sínar og samstarfsfélaga sinna.

Þegar hafa verið þróaðar örferjur til að verja og flytja ómega-3 fitusýrur og svokallað beta-karóten en að sögn Kristbergs þarf oftast að þróa sérstaklega örferjur fyrir hvert lífvirkt efni og fyrir ákveðna gerð matvæla. „Rannsóknirnar geta aukið neyslu ákveðinna lífvirkra efna og gert mögulegt að bæta þeim í almenn matvæli sem gæti bætt heilsu og dregið úr líkum á sjúkdómum,“ segir Kristberg að lokum um þýðingu rannsóknanna.