Skip to main content

Um MA-nám í þýsku í ferðaþjónustu og miðlun

MA-nám í þýsku í ferðaþjónustu og miðlun er hagnýt námsleið á meistarastigi. Með henni er komið til móts við þarfir atvinnulífsins fyrir fólk með sérhæfða þekkingu sem nýtist í sívaxandi samskiptum við þýskumælandi markhópa í ferðaþjónustu og menningarmiðlun sem og í ýmiss konar upplýsingamiðlun og kynningum auk alþjóðasamskipta. Náminu er ætlað að höfða jafnt til fólks sem þegar starfar á þessum sviðum og þeirra sem hyggja á störf á þessum vettvangi. Námið er hugsað sem beinn undirbúningur undir störf af þessu tagi sem auki verulega samkeppnishæfi þeirra sem því ljúka. Þar að auki hafa þeir sem aflað hafa sér meistaragráðu oftast ákveðið forskot á vinnumarkaðinum.

Forkröfur

Nemendur skulu hafa lokið BA-prófi með þýsku sem aðalgrein og 1. einkunn (7,25) eða sambærilegri menntun.

Markmið

Markmið MA-náms í þýsku í ferðaþjónustu og miðlun er m.a. að nemendur öðlist: 

  • gott yfirlit yfir þau svið ferðaþjónustu og menningarmiðlunar þar sem mest reynir á samskipti við þýskumælandi markhópa
  • hagnýta færni í miðlun upplýsinga og menningararfs til þýskumælandi markhópa
  • hagnýta þekkingu á Íslandi sem ferðamannalandi fyrir þýskumælandi þjóðir sem og Þýskalandi, Austurríki og Sviss sem ferðamannalöndum fyrir Íslendinga
  • betra vald á þýsku máli í ræðu og riti til upplýsinga- og menningarmiðlunar og ýmiss konar kynninga
  • þekkingu á þvermenningarlegum samskiptum með sérstöku tilliti til þýskumælandi þjóða.

Kennsluhættir

Þýska í ferðaþjónustu og miðlun er einkum kennd í málstofu-, æfinga- og fyrirlestraformi, auk þess sem fjölbreytt verkefnavinna og miðlun upplýsinga og staðreynda með mismunandi hætti er veigamikill þáttur í náminu.

Uppbygging námsins

Um er að ræða þriggja missera nám (90 ECTS-einingar). Gert er ráð fyrir að tveimur fyrstu misserunum sé varið í að ljúka námskeiðum sem nema alls 60 ECTS og þriðja og síðasta misserinu í að gera lokaverkefni upp á 30 ECTS.

1. misseri

  • Þýska í ferðaþjónustu 5 ECTS
  • Þýsk menningarsaga 5 ECTS
  • Málnotkun og framsetning: þýska 5 ECTS
  • Miðlunarleiðir 10 ECTS
  • Valnámskeið úr öðrum greinum 5-10 ECTS

2. misseri

  • Þýska í ferðaþjónustu: Leiðsögn og leiðarlýsingar 5 ECTS
  • Glöggt er gests augað (rannsóknarverkefni) 5 ECTS
  • Þýskaland, Austurríki og Sviss sem ferðamannalönd 5 ECTS
  • Stjórnkerfi, saga og menning: þýska 5 ECTS
  • Blitz aus heiterem Himmel 5 ECTS
  • Valnámskeið úr öðrum greinum 5-10 ECTS

3. misseri

  • Lokaverkefni til MA-prófs 30 ECTS

Námskeiðið Miðlunarleiðir er kennt á íslensku innan vébanda hagnýtrar menningarmiðlunar í Sagnfræði- og heimspekideild.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.