Skip to main content

Um BA-nám í grísku

Menntun í grísku og fornfræði veitir einstaka sýn í menningarsögu Evrópu og tækifæri til frekari rannsókna í hugvísindum. Hvort sem um er að ræða bókmenntasögu og heimspeki, mannkynssögu eða listasögu er menntun í fornfræði undirstöðuþáttur til skilnings á vestrænum menningararfi.

Um námið

Grískunám er hluti af fornfræðinámi. Undirstaða og kjarni fornfræðinnar er klassísk textafræði en fornfræði er einnig þverfagleg fræðigrein sem fæst við allar hliðar fornaldarmenningar Grikkja og Rómverja. Innan greinarinnar rúmast til dæmis sagnfræði, fornleifafræði, bókmenntafræði, heimspeki, listasaga og málvísindi að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina.

Til að geta fengist við viðfangsefnið er kunnátta í fornmálunum tveimur, grísku og latínu, nauðsynleg. Nám í fornfræði hefst því með námi í grísku og/eða latínu.

Markmið

Markmið með námi í grísku er að veita nemendum innsýn í fornaldarmenningu Grikkja og gera þá færa um að lesa og túlka heimildir og texta, sem eru afsprengi þeirrar menningar, enda er það lykillinn að frekari rannsóknum á klassískri menningu fornaldar og arfi hennar í nútímanum.

Námstilhögun

Námskeiðunum sem boðið er upp á má skipta í þrennt:

  • Grunnnámskeið eða byrjendanámskeið, þar sem farið er yfir beygingafræði, setningafræði og málsögu og textar eru vandlega lesnir og þýddir. Markmiðið með þessum námskeiðum er að gera nemendur færa til þess að lesa heimildir texta á frummálinu.
  • Yfirlitsnámskeið veita yfirlit yfir sögu og menningu fornaldar en ekki er gert ráð fyrir kunnáttu í latínu eða grísku í þeim námskeiðum. Þessi námskeið fjalla stundum um þrengri viðfangsefni en almenn yfirlitsnámskeið en efni þeirra er breytilegt á hverju misseri. Yfirlitsnámskeiðin standa oft nemendum í öðrum greinum til boða og er því ekki gert ráð fyrir þekkingu á frummálinu en þó lesi þeir sem stunda nám í latínu valda texta á frummálinu.
  • Námskeið í textalestri þjálfa nemendur enn frekar í lestri texta á frummálinu. Viðfangsefni þessara námskeiða er breytilegt frá ári til árs.

Enn fremur stendur nemendum til boða að vinna margs konar sérverkefni í samráði við og undir leiðsögn kennara eða í tengslum við námskeiðið.

Náminu lýkur með ritgerð til BA-prófs, sem vegur 10 einingar. Yfirleitt er um að ræða þýðingu á ákveðnu verki með fræðilegum inngangi en einnig kemur til greina hefðbundin námsritgerð, sem sýnir getu nemandans til að fjalla um viðfangsefni í grískum fræðum, t.a.m. í grískum bókmenntum eða Grikklandssögu, á fræðilegan máta.

Hvers vegna gríska?

Forngrísk menning er með margvíslegum hætti undirstaða vestrænnar nútímamenningar. Má þar ekki síst nefna gríska heimspeki en vestræn heimspeki síðari alda er enn þá að verulegu leyti samræða við þá Platon og Aristóteles.

Grísk goð og hetjur hafa verið viðfangsefni bókmennta og listsköpunar frá dögum Hómers. Sagnastef um Herakles, Akkilles, Ódysseif og Alexander mikla ganga meira að segja aftur í kvikmyndum okkar daga.

Á helleníska tímanum var lagður grundvöllur að ýmiss konar vísindagreinum, sem enn notast að verulegu leyti við grísk hugtök, til dæmis málfræði, læknisfræði og stærðfræði. Á þeim tíma var líka Nýja testamentið samið og öll helstu hugtök kristinnar guðfræði urðu til.

Á miðöldum lifði fornaldararfurinn góðu lífi í aust-rómverska keisaradæminu þar sem málfar og menning fornaldar hafði áhrif á ritmenninguna. Fram til um 1100 var aust-rómverska keisaradæmið öflugasta ríki Evrópu og menningin þar mun blómlegri en í nágrannaríkjum í vestri.

Í Grikklandi nútímans hafa til skamms tíma verið menningarárekstrar á milli þeirra sem aðhylltust hreintungu (kaþahrevousa) og talmálssinna, þar sem hreintungumenn vildu byggja á ritmáli fornaldar.

Þá er ótalið að allt fram á 19. öld var kunnátta í grísku talin grundvöllur að frekara námi lærdómsmanna. Meðal Íslendinga, sem voru góðir grískumenn, má til dæmis nefna þjóðhetjuna Jón Sigurðsson, skáldið Grím Thomsen og Sveinbjörn Egilsson, sem þýddi Hómerskviður á íslensku og lagði um leið grundvöll að málfari og stafsetningu nútímaíslensku.

Nýleg námskeið

Meðal námskeiða sem tengjast menningu fornaldar og kennd hafa verið í Háskóla Íslands nýlega eru: Þættir úr hugmyndasögu fornaldar, Goð og hetjur: Goðafræði Grikkja og Rómverja, Heimur Aþenu, Grískir gleðileikir og samfélag Aþeninga, Rómversk lýrík, Latneskur kveðskapur, Sallústíus, Cicero: Um eðli guðanna og Miðaldalatína.

Húsnæði

Kennsla fer aðallega fram í Veröld - húsi Vigdísar, Aðalbyggingu, Odda og Árnagarði.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.