Skip to main content

Um íslensku sem annað mál

Netspjall

Nám í Íslensku sem öðru máli er kjörin leið fyrir þá sem vilja öðlast fræðilega og/eða hagnýta þekkingu á íslensku. Tvær námsleiðir eru í boði: BA-nám sem er í senn hagnýtt tungumálanám og almennt fræðilegt nám um íslenska tungu, bókmenntir og sögu Íslands og hagnýtt diplómanám sem er einkum ætlað þeim sem vilja auka færni sína í íslensku til að geta tekist á við annað nám eða störf í íslensku samfélagi. Auk þessara skilgreindu námsleiða er boðið upp á hagnýtt námskeið fyrir byrjendur í íslensku, Icelandic – the basics, og inngangsnámskeið Icelandic culture, sem eru ætluð skiptinemum og nemendum úr öðrum deildum Háskóla Íslands. Aðeins er tekið við umsóknum einu sinni á ári og hefja nemendur jafnan nám að hausti.

Nám í Íslensku sem öðru máli hefur ótvírætt hagnýtt gildi og hefur reynst nemendum gott veganesti á lífsleiðinni. Nemendur eiga að námi loknu að hafa öðlast nauðsynlegan grunn og fræðilega þekkingu í íslensku máli og menningu til að leggja stund á frekara íslenskunám. Nemendur eiga auk þess að hafa tileinkað sér sjálfstæði, víðsýni og gagnrýna hugsun sem nýtist þeim í námi og starfi. Margir hafa haldið áfram námi í íslensku eða skyldum greinum í heimalandi sínu eða hérlendis, enda veitir kunnátta í íslensku, byggð á fræðilegum grunni, mikla möguleika til frekara náms og rannsókna á mörgum sviðum málvísinda og bókmennta. Aðrir hafa sest hér að, lagt íslensku samfélagi lið og auðgað það. Þeir sem hafa traust og góð tök á tungumálinu og almenna þekkingu á íslenskri menningu standa betur að vígi í íslensku samfélagi en ella.

BA-nám

Þessi námsleið er einkum ætluð þeim sem hafa fræðilegan áhuga á íslensku máli, bókmenntum og menningu. Námið er í senn fræðilegt og hagnýtt. Annars vegar er um að ræða tungumálanám þar sem nemendur fá kennslu og þjálfun í að skrifa, tala og skilja nútímaíslensku og hins vegar almennt fræðilegt nám um íslenska tungu, bókmenntir og sögu Íslands. Fjallað er um beygingakerfi, setningakerfi og hljóðkerfi íslensks nútímamáls. Nemendur lesa jafnt fornbókmenntir sem nútímabókmenntir og fjallað er um sögu Íslands og samfélag. Þá er þýðingafræði og þýðingum gerð nokkur skil og einnig annars máls fræði þar sem íslenska er í forgrunni.

Markmið

Markmið námsins er að nemendur nái öruggum tökum á íslensku máli, rituðu sem töluðu, og öðlist staðgóða þekkingu á eðli íslenskrar tungu og bókmennta sem og á menningu og þjóðlífi.

Tilhögun

Hægt er að nema íslensku sem annað mál sem aðalgrein í tvö eða þrjú ár (til 120 eða 180 eininga) eða aukagrein í eitt ár (til 60 eininga). Kennsla fer fram í fyrirlestrum, smærri hópum og umræðutímum. Einnig eru heimaverkefni mikilvægur þáttur kennslunnar í flestum námskeiðum. Tímasókn er hófleg en heimavinna er mikil og slíkt krefst sjálfstæðra og agaðra vinnubragða og gagnrýninnar hugsunar. Námsmat er af ýmsum toga: skrifleg og munnleg próf, framsaga í tímum, ritgerðir, heimaverkefni.

Hagnýtt nám

Þessi námsleið er einkum ætluð almennum nemendum og skiptinemum sem vilja öðlasta grundvallarfærni í íslensku, m.a. í þeim tilgangi að stunda annað nám eða sinna almennum störfum í íslensku samfélagi. Hvorki er hægt að fá einstök námskeið úr þessari námsleið metin inn í BA-nám í íslensku sem annað mál né sem aukagrein til BA-prófs í annarri námsleið innan háskólans.

Markmið

Markmið námsins er að nemendur nái grundvallartökum á íslensku máli, rituðu sem töluðu.

Tilhögun

Um er að ræða eins árs nám (60 einingar), sem lýkur með diplómagráðu. Kennsla fer fram í fyrirlestrum, smærri hópum og umræðutímum. Einnig eru heimaverkefni mikilvægur þáttur kennslunnar í flestum námskeiðum. Tímasókn er ekki mjög mikil en heimavinna er umtalsverð og slíkt krefst sjálfstæðra og agaðra vinnubragða og gagnrýnnar hugsunar. Námsmat er af ýmsum toga: skrifleg og munnleg próf, framsaga í tímum, heimaverkefni.

Stök námskeið

Námskeiðin sem hér eru kynnt eru sérstaklega ætluð skiptinemum og öðrum erlendum nemendum við Háskóla Íslands. Námskeiðin er er ekki hægt að fá metin í stað annarra námskeiða í Íslensku sem öðru máli. Fer skráning í þau fram hjá Nemendaskrá HÍ eða á Uglu.

Íslenskugrunnur

Um er að ræða hagnýtt 10 eininga námskeið ætlað byrjendum í íslensku, kennt á haust- og vormisseri. Áhersla er lögð á grunnatriði í málnotkun og málfræði og nemendur fá jafnframt innsýn í menningu og samfélag. Markmið námskeiðsins er að gera nemendur færa um að taka þátt í einföldum samræðum á íslensku, lesa og skilja  einfalda texta og geta skrifað einfaldar setningar. Námskeiðið er sambland af vinnu í kennslustofu með kennara og sjálfsnámi. Krafist er virkrar þátttöku nemenda.

Íslensk menning

Í námskeiðinu, sem kennt er á ensku, er gefið yfirlit yfir íslenska menningu frá landnámi og fjallað um hin hröðu umskipti sem orðið hafa í átt til nútímalifnaðarhátta á undanförnum áratugum. Íslensk samtímamenning og listir eru þó þeir þættir sem mest áhersla er lögð á. Fjallað er um bókmenntir, tónlist, myndlist, kvikmyndir, húsagerð, umhverfismál og íslenska náttúru. Lesið er úrval íslenskra nútímabókmennta og rætt um helstu strauma og stefnur í íslenskri bókmenntasögu. Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum, umræðum í tímum og heimsóknum á söfn.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
2 + 11 =
Leystu þetta einfalda dæmi og settu inn niðurstöðuna. T.d. ef dæmið er 1 + 3, settu þá inn 4.