Skip to main content

Hagfræðin glímir við hrunið

Guðni Thorlacius Jóhannesson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild

„Ég skoða hvaða áhrif fjármálakreppan, sem komst í algleyming haustið 2008, hefur haft á kennslu í hagfræði og skyldum greinum við háskóla heimsins, með sérstakri áherslu á stöðu mála hér á landi,“ segir sagnfræðingurinn Guðni Thorlacius Jóhannesson um verkefni sem hann vinnur nú að.

Guðni Thorlacius Jóhannesson

Hrunið hefur orðið kveikja að rannsóknum fjölmargra vísindamanna við Háskóla Íslands á nær öllum fræðasviðum og því er Guðni ekki einn um að hafa heillast af hruninu sem fræðilegu viðfangsefni.

Guðni Thorlacius Jóhannesson

Hrunið hefur orðið kveikja að rannsóknum fjölmargra vísindamanna við Háskóla Íslands á nær öllum fræðasviðum og því er Guðni ekki einn um að hafa heillast af hruninu sem fræðilegu viðfangsefni. Hann setti það eins og margir aðrir í háskerpu í sínum pælingum fljótlega eftir að það dundi yfir. „Nokkru seinna varð ég samt dauðleiður á því, það gerði mig svartsýnan um eðli mannsins og eðli samfélaga. Núna er ég aftur til í að rýna í hinar mörgu orsakaskýringar sem koma til álita. Þetta er ekki síst vegna þess að ég var að kenna námskeið um hrunið með afar skemmtilegum og duglegum nemendum sem koma úr hinum ýmsu greinum háskólans.“

Guðni segir að fljótlega eftir hamfarirnar 2008 hafi menn farið að velta fyrir sér orsökum þeirra. „Meðal annars var því haldið fram að í háskólunum hefðu sumir lofað fjármálakerfið í blindni og fyrir fúlgur fjár. Sömuleiðis lenti hagfræðin sem fag í kröggum. Af hverju sáu bara örfáir hagfræðingar hrunið fyrir? Hvað var verið að kenna fólki sem flaggaði hinum og þessum gráðum en kallaði svo efnahagslegar hörmungar yfir almenning?“

Guðni leitar nú svara við þessum stóru spurningum í þessu litla verkefni sem hann þvertekur fyrir að sé rannsókn sem leiða muni til beinharðra niðurstaðna. „En vonandi fær verkefnið mitt samt fólk til þess að líta með opnum huga á það sem betur má fara í kennslu og rannsóknum í hagfræði og skyldum greinum.“