Gosið í Holuhrauni sjaldgæft á heimsmælikvarða | Háskóli Íslands Skip to main content

Gosið í Holuhrauni sjaldgæft á heimsmælikvarða

Ármann Höskuldsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans

„Ef varlega er farið þarf ekki að óttast um líf sitt,“ segir Ármann Höskuldsson jarðvísindamaður sem hefur verið ötull við rannsóknir í Holuhrauni allt frá því gosið þar hófst. Ármann hefur vakið landsathygli fyrir magnaðar útlistanir á eðli eldgossins í Holuhrauni og talað skýrt og skorinort við fréttamenn. Reyndar vill Ármann frekar kenna hraunið nýja við nornir en holur. „Rannsóknir okkar hér í Nornahrauni felast í því að fylgjast með framvindu eldgossins,“ segir hann, „og þær rannsóknir eru margbrotnar.“ Vísindamenn Háskóla Íslands mæla reglulega breytingar á útbreiðslu hraunsins, taka sýni af hrauninu og kanna hvort breytingar eigi sér stað í efnasamsetningu og innihaldi kristalla. „Við mælum líka hæð og eðli gosmakkarins til að leggja mat á gasútstreymi,“ segir Ármann, en þar er um að ræða afar áríðandi þátt fyrir öryggi almennings.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi rannsóknanna við eldstöðvarnar en þær skipta miklu fyrir öryggi og veita að auki innsýn í næstu eldgos af svipuðu tagi, jafnt hér og erlendis.

„Gosið hér er stórt ef litið er til uppstreymis kviku á tímaeiningu og gos af þessu tagi teljast sjaldgæf á heimsmælikvarða. Því er mikilvægt að ná sem bestum upplýsingum um framgang og þróun þess til að hafa til samanburðar í framtíðinni.“

Ármann Höskuldsson

„Rannsóknir okkar hér í Nornahrauni felast í því að fylgjast með framvindu eldgossins,“ segir hann, „og þær rannsóknir eru margbrotnar.“

Ármann Höskuldsson

Ármann bætir því við að eldgos eins og þetta geri okkur kleift að skilja hvernig aðstæður á jörðinni urðu eins og þær blasa við okkur í dag, „því eldgos eru eitt helsta mótunarafl lofthjúps jarðar sem og yfirborðs hennar. Þá færa eldgos okkur mikilvægar upplýsingar úr iðrum jarðar sem gerir okkur kleift að skilja betur eðli jarðarinnar.“

Að Ármanns sögn færast vísindin stöðugt fram á veginn. „Framfarir í eldfjallafræði hafa verið miklar á undanförnum áratugum og aukast stöðugt með hverju nýju eldgosi. Við áttum okkur sífellt betur á þeim öflum og efnum sem mestu ráða um hegðun eldgosa. Það hjálpar okkur að spá fyrir um hvernig eldgos ganga fyrir sig eftir að þau eru hafin.“

Ármann segir að spár um eldgos hafi batnað með árunum og í sumum tilvikum geti menn sagt fyrir um jarðelda með stuttum fyrirvara. „En það er samt enn langt í land með að við getum sagt fyrir um eldgos með löngum fyrirvara með viðunandi nákvæmni. Til að mynda lætur Hekla vita af sér hálfum til heilum tíma fyrir eldgos en það verður að teljast stuttur fyrirvari og nákvæmar langtímaspár eru enn langt undan.“

Þótt margir dáist að ógnarmætti eldgosanna og vilji fljúga sem næst eldsumbrotum til að njóta þeirra þá sýnist sitt hverjum um fegurðina. „Ég hugsa að sumir Eyjamenn eigi erfitt með að sjá fegurðina í eldgosum eins og þessu hér í Nornahrauni án þess að minnast þeirra skelfilegu atburða sem skóku Heimaey 1973. En eldur og glóð hafa engu að síður heillað mannveruna frá því hún fór að nýta sér eldinn. Það er notalegt að sitja fyrir framan arin,“ segir Ármann og glottir.

Ármann getur ekki neitað því að hafa gaman að jörðinni og hennar dyntum, eins og hann kallar umbrotin. „Svo finnst mér gaman að ferðast og horfa í landið og sjá sögu þess út frá jarðlögum. Eldfjallafræði er einstaklega skemmtileg vegna þess að þar gerast hlutirnir hratt á jarðsögulegum tíma svo að maður sér miklar breytingar og þá ferla sem þeim tengjast á afar stuttum tíma.“

Netspjall